Dagbjartur, Guðmundur Ágúst og Haraldur Franklín leika á 2. stigs úrtökumóti fyrir DP World Tour!

Þrír af okkar fremstu atvinnukylfingum hefja í dag leik á 2. stigs úrtökumótum fyrir DP World Tour sem er sterkasta mótaröð Evrópu. Þeir Dagbjartur Sigurbrandsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús hefja allir leik í dag á þremur mismunandi völlum á Spáni en fjögur úrtökumót eru leikin samtímis dagana 30. október – 2. nóvember. Í hvert mót mæta 72 kylfingar til leiks og spila um 24 laus sæti í lokaúrtökumótinu.

Guðmundur Ágúst vann sitt úrtökumót í Svíþjóð og tryggði sér með því sæti á 2. stiginu.

Guðmundur leikur á Fontanals Golf Club vellinum í Girona. Guðmundur lék völlinn fyrr á árinu í Challenge de España mótinu á HotelPlanner Tour, og lauk þar leik í 47. sæti á sex höggum undir pari.

Fontanals Golf Club

Hér má fylgjast með stöðunni hjá Guðmundi

Dagbjartur lék vel í sínu úrtökumóti í Danmörku, endaði þar jafn í 8. sæti og var í öruggu sæti frá upphafi móts.

Dagbjartur leikur á Desert Springs Golf Club svæðinu í Almería. Á meðal keppenda eru núverandi kylfingar DP mótaraðarinnar, HotelPlanner Tour og fyrrum sigurvegarar á Evrópumótaröðinni. Spennandi verður að fylgjast með Íslandsmeistaranum taka sín fyrstu skref í átt að atvinnumennsku gegn öflugri samkeppni.

Desert Springs Golf Club

Hér má fylgjast með stöðunni hjá Dagbjarti

Haraldur Franklín þurfti ekki að leika á 1. stiginu og komst beint inn í mót vikunnar eftir góðan árangur á HotelPlanner Tour mótaröðinni í sumar. Þar endaði hann í 63. sæti stigalistans, þrátt fyrir að hafa leikið í mikið færri mótum en flestir kylfingar mótaraðarinnar. Hans besti árangur kom á Dormy Open mótinu í Svíþjóð þar sem hann endaði annar og var hársbreidd frá því að leika lokahringinn á 59 höggum.

Haraldur Franklín leikur á Isla Canela Links vellinum í Huelva.

Isla Canela Links

Hér má fylgjast með stöðunni hjá Haraldi