Korpúlfsstaðavöllur – hellulagnir og helstu vetrarverkefni

Korpúlfsstaðavöllur – hellulagnir og helstu vetrarverkefni

Eins og komið hefur fram stendur vetrarvinna á völlum félagsins nú yfir og hafa starfsmenn af nógu að taka. Á Korpúlfsstaðavelli hefur fókusinn verið að miklu leyti að snyrta til næst klúbbhúsinu ásamt helstu vetrarverkum sem vinna þarf eins og t.d. losun vökvunarkerfa.

Við 10. teig hefur stígur sem liggur meðfram teignum verið hellulagður og er vinna nú hafin við að endurbæta teiginn sjálfan. Haughúsið sem þjónustaði fjósið á Korpúlfsstöðum á fyrri árum liggur fyrir neðan stíginn og þar af leiðandi ekki gerlegt að lækka stíginn til jafns við teig og því brugðið á það ráð að hækka fremri hlutann. Í framhaldi af hellulögn við 10. teig var farið af stað í sömu vinnu við 19. teiginn og stendur sú vinna einnig yfir nú. Ásamt þessu hefur staðið yfir snyrting og einhver gróðursetning trjáa á vellinum.

Athygli félagsmanna er vakin á því að hluti vallarins, Landið/Áin, er enn opinn inn á sumarflatir. Lokað er fyrir alla golfbílaumferð á vellinum og óska vallarstarfsmenn þess að kylfingar passi upp á að laga eftir sig boltaför og hugi að því hvar gengið er með kerrur en nokkuð hefur borið á því að verið sé að stytta sér leiðir yfir horn flata. Hjálpist allir að við að gæta að þessu flýtir það fyrir opnun þegar vora tekur að nýju. Sjórinn er enn lokaður og hefur verið lokaður frá því fyrr í haust vegna bleytu, starfsmenn hefjast handa þegar færi gefst að drena þau svæði sem hvað blautust eru.

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit