Aðalfundur Golfklúbbs Reykjavíkur 2020 - metþátttaka

Aðalfundur Golfklúbbs Reykjavíkur 2020 - metþátttaka

Aðalfundur Golfklúbbs Reykjavíkur fór fram við heldur óhefðbundnar aðstæður í gær en vegna samkomutakmarkanna var fundurinn haldinn rafrænt. Félagsmenn þurftu að skrá sig til fundar fyrirfram og bárust félaginu um 400 skráningar fyrir kl. 18:00 á fundardegi. Aldrei áður hafa jafn margir félagar setið Aðalfund.

Formaður félagsins fór yfir skýrslu stjórnar og kynnti áherslur ársins 2021. Harpa Ægisdóttir, fjármálastjóri kynnti ársreikning félagsins og þá fór Ómar Örn Friðriksskon, framkvæmdarstjóri, yfir fjárhagsáætlun komandi starfsárs. Fundarstjóri var Ólafur Arinbjörn Sigurðsson.

Björn Víglundsson gaf áfram kost á sér sem formaður félagsins og hefur nú sitt sjöunda starfsár sem  formaður. Alls gáfu sex aðilar kost á sér til kjörs í aðalstjórn og koma tveir nýir aðilar í stjórn félagsins til næstu tveggja ára. Ólafur W. Hand hlaut endurkjör og koma þau Kristín Eysteinsdóttir og Brynjar Jóhannesson ný inn. Í varastjórn kemur nýr inn Guðmundur Arason og sitja áfram Stefán Már Stefánsson og Þórey Jónsdóttir.

Við þökkum þeim Jóni B. Stefánssyni og Önnu Björk Birgisdóttir fráfarandi stjórnarmönnum kærlega fyrir vel unnin störf fyrir félagið á liðnum árum.

Guðný H. Guðmundsdóttir, fyrrverandi gjaldkeri, lést á árinu og vottum við fjölskyldu hennar og aðstandendum samúð um leið og við þökkum fyrir öll hennar óeigingjörnu störf fyrir félagið.

Guðmundur Björnsson lét af störfum sem formaður kjörnefndar og kemur Sigurjón Árni Ólafsson nýr inn í kjörnefnd á komandi starfsári. Golfklúbbur Reykjavíkur vill þakka Guðmundi fyrir vel unnin störf í gegnum árin.

Hagnaður á starfsárinu var 102,5 milljónir króna til samanburðar við 104 milljónir árið á undan. Tekjur námu alls 544 milljónum samanborið við 512 milljónir á árinu 2019. Golfklúbbur Reykjavíkur annaðist rekstur tveggja golfvalla árinu ásamt rekstri Bása.

Eins og kynnt hefur verið á miðlum félgsins eru stórframkvæmdir fyrirhugaðar á vormánuðum. Framkvæmdarsjóður klúbbsins stendur vel og eru spennandi tímar framundan þar sem mikil uppbygging mun eiga sér stað. Aðstaða félagsmanna til golfiðkunar allt árið um kring verður bætt til muna.

Fjárhagsáætlun GR 2021 var samþykkt á aðalfundi og verða félagsgjöld hækkuð hóflega á milli ára eða um 2% og horfir stjórn til samfélagslegrar ábyrgðar í þeim efnum. Gjaldskrá fyrir komandi tímabil verður eftirfarandi: 

Félagsmenn 19-26 ára, kr. 57.100
Félagsmenn 27-70 ára, kr. 114.100
Félagsmenn 71-74 ára, kr. 85.400
Félagsmenn 75 ára og eldri, kr. 85.400 
Félagsmenn 75 ára og eldri*, kr. 57.100
*enda hafi félagi verið í GR í a.m.k. 10 ár

Golfklúbbur Reykjavíkur notast áfram við Nóra félagakerfi við skráningu og innheimtu félagsgjalda. Skráning greiðslufyrirkomulags fer fram í gegnum félagavef https://grgolf.felog.is/ og þurfa félagsmenn að skrá sig inn til að ráðstafa greiðslutilhögun. Áfram er boðið upp á það greiðslufyrirkomulag sem hefur verið undanfarin ár – allt að 5 skipti með kröfum í banka eða allt að 10 skipti með dreifingu á greiðslukort.  

Áfram verður hægt að nýta frístundastyrk sveitarfélaga við greiðslu 6-18 ára á komandi ári og verður gjaldskrá þess aldurshóps fyrir árið 2020 þessi: 

Heilsársæfingar, kr. 48.800
Hálfsársæfingar, kr. 28.250
Sumaræfingar, kr. 17.950

Á árinu varð 34% aukning í leiknum hringjum á völlum GR frá fyrra ári, framboð rástíma jókst um 17% með tilfærslu bókana úr 10 mínútum í 9 mínútur. Þessa miklu má einnig tengja við faraldursins sem gerði það að verkum að félagsmenn voru meira heima við og spiluðu almennt meira golf.

Mikil aukning var í fjölda leikinna hringja á vinavöllum félagsins en ætla má að faraldurinn hafi spilað einnig spilað þar stóran þátt. Landsmenn ferðuðust meira innanlands og nýttu félagsmenn sér eldri og nýja vinavelli félagsins um land allt.

Golfklúbbur Reykjavíkur vill koma fram þökkum til Ólafi Arinbirni fundarstjóra fyrir faglega og góða fundarstjórn og félagsmönnum fyrir sína þátttöku.

Stjórn, framkvæmdarstjóri og starfsfólk klúbbsins þakkar félagsmönnum fyrir óvenjulegt en gott starfsár

Til baka í yfirlit