Aðalfundur GR 2019 – samantekt

Aðalfundur GR 2019 – samantekt

Aðalfundur Golfklúbbs Reykjavíkur var haldinn í gær og fór fundurinn fram á Korpúlfsstöðum. Fundarstörf voru með hefðbundnum hætti, formaður klúbbsins fór yfir skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2020 og gjaldkeri kynnti ársreikning og fjárhagsáætlun félagsins.

Björn Víglundsson situr áfram sem formaður klúbbsins og hefur nú sitt sjötta starfsár sem sitjandi formaður. Tveir nýjir fulltrúar voru kosnir í varastjórn félagsins fyrir árið 2020, þau Gísli Guðni Hall og Þórey Jónsdóttir og bjóðum við þau velkomin til starfa fyrir félagið. Við þökkum þeim Atla Þór Þorvaldssyni og Sigurði H. Hafsteinssyni, fráfarandi fulltrúum úr varastjórn, fyrir vel unnin störf.

Hagnaður á starfsárinu var 104 millj. kr. en til samanburðar varð hagnaður árið á undan 78 millj. kr. Tekjur námu alls 512 millj. kr. samanborið við 458 millj. kr. á árinu 2018. Golfklúbburinn annaðist rekstur tveggja golfvalla á árinu ásamt því að sjá um rekstur Bása.

Stór verkefni bíða Golfklúbbs Reykjavíkur á næstu árum og stendur framkvæmdarsjóður klúbbsins vel og verður tilbúinn í þau verkefni þegar þar að kemur. Stefnt er að því að þau verkefni verði framkvæmd með framlagi Reykjavíkurborgar og eigin fé klúbbsins. Formaður tilkynnti á aðalfundi að boðað yrði til sérstaks félagsfundar þar sem umræða um framtíðaruppbyggingu Golfklúbbs Reykjavíkur verði kynnt félagsmönnum.

Fjárhagsáætlun GR 2020 var samþykkt á aðalfundi og verða félagsgjöld hækkuð um 3,5% og er gjaldskrá komandi árs eftirfarandi: 

Félagsmenn 19-26 ára, kr. 56.000
Félagsmenn 27-70 ára, kr. 111.900
Félagsmenn 71-74 ára, kr. 83.700
Félagsmenn 75 ára og eldri, kr. 83.700
Félagsmenn 75 ára og eldri*, kr. 56.000
*enda hafi félagi verið í GR í a.m.k. 10 ár

Golfklúbbur Reykjavíkur notast áfram við Nóra félagakerfi við skráningu og innheimtu félagsgjalda. Skráning greiðslufyrirkomulags fer fram í gegnum félagavef https://grgolf.felog.is/ og hvetjum við félagsmenn til fara yfir greiðsluupplýsingar sínar og uppfæra ef á að gera breytingar. Áfram er boðið upp á það  greiðslufyrirkomulag sem hefur verið undanfarin ár – allt að 5 skipti með kröfum í banka eða allt að 10 skipti með dreifingu á greiðslukort.  

Áfram verður hægt að nýta frístundastyrk sveitarfélaga við greiðslu 6-18 ára á komandi ári og verður gjaldskrá þess aldurshóps fyrir árið 2020 þessi: 

Heilsársæfingar, kr. 47.850
Hálfsársæfingar, kr. 27.700
Sumaræfingar, kr. 17.600

Á árinu varð 24% aukning í leiknum hringjum á völlum GR frá fyrra ári og má þessa miklu aukningu tengja við hið góða veðurfar sem við fengum að njóta.

Korpa 9 holur – 39.121 hringir samanborið við 33.938 á árinu 2018
Korpa 18 holur – 37.529 hringir samanborið við 31.044 á árinu 2018
Grafarholt – 39.006 hringir samanborið við 28.280 á árinu 2018

Mikil aukning var í fjölda leikinna hringja á vinavöllum félagsins en ætla má að veðurfar hafi spilað einngi spilað þar stóran þátt.

Brynjar Jóhannesson tók til máls og talaði fyrir hönd golfhópsins Elítunnar um það hvað félagsmenn gætu gert fyrir klúbbinn. Í framhaldi lagði hann það til að hópar tækju að sér að fóstra brautir valla GR í samvinnu við vallarstarfsmenn. Þessi tillaga hlaut góðar undirtektir og munu starfsmenn félagsins vinna nánar að henni og kynna félagsmönnum.

Formaður fór yfir fyrirhugaðar framkvæmdir á komandi rekstrarári og má þar helst nefna endurbætur á golfskálanum í Grafarholti og inniæfingaaðstöðu á 2. hæð Korpu, þar er fyrirhugað að endurnýja gólfefni og bæta lýsingu í sal. Rúsínan í pylsuendanum á komandi ári eru golfhermar sem væntanlegir eru í TrackMan Range í Básum en þar verður hægt að leika alla velli Golfklúbbs Reykjavíkur sem og aðra heimsfræga golfvelli. Reikna má með að hermarnir verði settir upp á vormánuðum.

Golfklúbbur Reykjavíkur vill koma fram þökkum til Ólafi Arinbirni fundarstjóra fyrir faglega og góða fundarstjórn og félagsmönnum fyrir sína þátttöku.

Skýrsla stjórnar
Ársreikningur GR 2020

Stjórn, framkvæmdarstjóri og starfsfólk klúbbsins þakkar félagsmönnum fyrir gott starfsár

Til baka í yfirlit