Það fjölgar áfram í hópi vinavalla Golfklúbbs Reykjavíkur fyrir komandi sumar og er Hólmsvöllur í Leirunni hjá Golfklúbbi Suðurnesja sá sjötti sem kynntur er til leiks. Völlinn þarf varla að kynna fyrir félagsmönnum en samstarf hefur verið á milli klúbbanna um árabil.
Hólmsvelli svipar að mörgu leyti til breskra strandvalla. Náttúruöflin eru hluti af leiknum og þeirri upplifun sem honum fylgir. Leiran er þekkt fyrir krefjandi upphafsholur sínar, og þá einna helst þriðju brautina – Bergvíkina – þar sem aðeins þeir hörðustu þora að slá beint á flöt, yfir öldurótið sem lætur kröftuglega í sér heyra. Reynir þar verulega á einbeitingu þess sem slær.
Bóki félagsmenn GR sjálfir rástíma í gegnum Golfbox eru greiddar kr. 4.000 fyrir hvern leikinn hring og er bókunarfyrirvari tveir dagar. Sé rástími bókaður umfram bókunarfyrirvara eða í gegnum skrifstofu GS greiða félagsmenn GR kr. 4.500 fyrir hvern leikinn hring. Áður en leikur hefst skulu félagar staðfesta félagsaðild í afgreiðslu og ganga frá greiðslu vallargjalds. Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti, sbr. fyrirtækjamót.
Félagsmenn GR hafa verið duglegir að heimsækja Leiruna á undanförnum árum og vonum við að almenn ánægja verði meðal félagsmanna með þennan áframhaldandi vinavallakost.
Samantekt og upplýsingar um alla vinavelli félagsins er að finna hér
Góða helgi!
Golfklúbbur Reykjavíkur