Áhrif samkomubanns á starfsemi Golfklúbbs Reykjavíkur – inniæfingaaðstaða Korpu og Básar verður áfram opið

Áhrif samkomubanns á starfsemi Golfklúbbs Reykjavíkur – inniæfingaaðstaða Korpu og Básar verður áfram opið

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum mun samkomubann taka gildi frá og með miðnætti í kvöld. Ljóst er að þetta hefur einhver áhrif út í allt samfélagið þar með talið til starfsemi okkar. Engu að síður munu félagsmenn hafa kost á að nýta sér aðstöðu okkar á Korpu og í Básum. Takmarkanir verða á fjölda einstaklinga á báðum stöðum í samræmi við það sem gefið hefur verið út af Landlækni og minnum við á handþvott, spritt og almennt hreinlæti.

Korpa inniæfingaaðstaða
Inniæfingaaðstaða á Korpu verður opin alla virka daga frá kl. 09:00 og verður uppfærður opnunartími settur inn á vefsíðu félagsins á morgun, mánudag. Veitingasalurinn á neðri hæð verður einnig opinn félagsmönnum en hafa skal í huga á báðum hæðum hússins að virða skal þá fjarlægð sem Landlæknisembættið leggur til, 2 metra á milli einstaklinga. Það er á ábyrgð hvers og eins að gæta þess að nálægð sé innan þeirra marka sem lagt er til.

Básar – 30% afsláttur af boltakortum
Básar verða áfram opnir samkvæmt auglýstum opnunartíma og geta kylfingar því mætt og undirbúið sig fyrir golfsumarið. Bent hefur á mikilvægi þess að einstaklingar sinni hreyfingu og andlegri heilsu í þeirri vá sem gengur yfir og vill Golfklúbbur Reykjavíkur stuðla að því að kylfingar sinni golfiðkun sinni og ætlar að bjóða 30% afslátt af boltakortum frá og með mánudegi til föstudags. Athugið að starfsmaður í afgreiðslu er á vakt alla virka daga frá kl. 16:00.

Púttmótaraðir karla og kvenna
Sameiginleg frétt um púttmótaraðir karla og kvenna verður send út til félagsmanna á morgun, mánudag.

Barna- og unglingastarf
Þjálfarar félagsins munu funda í fyrramálið og senda út tilkynningu í framhaldi um það hvernig barna- og unglingastarfi verður háttað næstu vikurnar.

Samhliða því að geta stundað golfæfingar þá viljum við einnig hvetja félagsmenn og fjölskyldur þeirra til að nýta sér þær frábæru gönguleiðir sem eru í kringum golfvelli félagsins á Korpúlfsstöðum og í Grafarholti. Þrátt fyrir breyttar aðstæður þá fer sól hækkandi og vorar áður en við vitum, því er um að gera að halda sér á hreyfingu, bæði fyrir líkama og sál.

Ef einhverjar spurningar vakna þá er velkomið að hafa samband við skrifstofu í síma 5850200 eða í gegnum netfangið gr@grgolf.is

Golfklúbbur Reykjavíkur

 

 

 

 

 

Til baka í yfirlit