Annar vinavöllur GR 2020 er hjá Golfklúbbi Skagafjarðar

Annar vinavöllur GR 2020 er hjá Golfklúbbi Skagafjarðar

Nú fara vinavellirnir að tínast inn hver af öðrum og er ánægjulegt að kynna félagsmönnum um nýjan völl í vinavallahópi klúbbsins en það er Hlíðarendavöllur hjá Golfklúbbi Skagafjarðar (GSS) sem staðsettur er á Sauðárkróki og er jafnframt fyrsti vinavöllur klúbbsins á norðurlandi.

Golfklúbbur Skagafjarðar fagnar 50 ára afmæli á árinu en hann var stofnaður árið 1970. Hlíðarendavöllur fær einróma lof þeirra sem hann sækja. Völlurinn er 9 holur og par 72 miðað við 18 holur. Völlurinn er staðsettur ofan við Sauðárkrók og í göngufæri frá miðbæ.  Útsýnið yfir fagran Skagafjörðinn er einstakt.  Í golfskálanum eru seldar veitingar og hægt að kaupa eitthvað af golfvörum í verslun. Við völlinn er einnig að finna mjög stórt æfingasvæði þar sem staðsett eru fjarlægðarskilti og hægt að fá bolta keypta til æfinga. 

Allar upplýsingar um GSS er að finna á vefsíðu klúbbsins www.gss.is og þar meðal annars hægt að sjá  dróna video af brautum vallarins.

Sömu reglur gilda á Hlíðarendavelli eins og áður á vinavöllum, félagsmenn Golfklúbbs Reykjavíkur greiða kr. 3.000 í vallargjald í hvert sinn er þeir leika Hliðarendavöll og skiptir þá ekki máli hvort leiknar séu 9 eða 18 holur. Áður en leikur hefst skulu félagar framvísa félagsskírteini sínu og greiða vallargjald í afgreiðslu. Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum, sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti af vallargjöldum, eins og t.d fyrirtækjamót.

Þegar nær dregur vori verður kynnt frekar fyrir félagsmönnum hvernig bókun á vinavöllum fer fram í nýju tölvukerfi, Golfbox.

Við vonum að félagsmenn fagni þessari nýju viðbót og nýti sér vinavallasamning félagsins á norðurlandi í sumar.

Góða helgi!
Golflklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit