Ásta Óskarsdóttir er púttmeistari GR kvenna árið 2020

Ásta Óskarsdóttir er púttmeistari GR kvenna árið 2020

Sælar kæru GR konur,

Skemmtilegri og spennandi púttmótaröð lauk eftir 7 skipti í endurbættri inniæfingaaðstöðu okkar á Korpúlfsstöðum. Mótaröðin hófst 28. janúar og lauk 10. mars 2020 vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Líkt og undanfarin ár var frábær þátttaka en heildarfjöldi sem skráði sig til mótsins í vetur taldi 227 konur, mjög vel gert! Tveir hringir voru spilaðir hvert þriðjudagskvöld þar sem betri hringurinn taldi og til púttmeistara töldu 4 bestu hringirnir.

Púttmeistari GR-kvenna árið 2020 er Ásta Óskarsdóttir og hlýtur hún í verðlaun gjafakort í Golfskálanum að upphæð kr. 50.000. Ásta fór 4 bestu hringina sína á samtals 115 höggum sem er frábær frammistaða. Í 2. sæti er Lára Eymundsdóttir á samtals 116 höggum, hún hlýtur í verðlaun gjafakort í Golfskálanum að upphæð kr. 30.000. Í 3. sæti er Linda Bergsveinsdóttir á samtals 116 höggum, hún hlýtur í verðlaun gjafakort í Golfskálanum að upphæð kr. 20.000.

Það var mjög mjótt á munum um 2-5. sætið og heildarskorið hnífjafnt, fara þurfti krókaleiðir í seinni 9 holur í síðasta spilaða hring sem taldi inn í mótið fyrir viðkomandi til að finna úrslitin. Þær Signý Marta Böðvarsdóttir og Sólveig Pétursdóttir tóku 4. og 5. sætið og svo koll af kolli.

Við óskum Ástu Óskarsdóttur innilega til hamingju með árangurinn og titilinn og okkur öllum hinum fyrir góða þátttöku.

Púttmótaröðin er meira en heildarskor, við veitum einnig verðlaun fyrir besta skor á hverju púttmótskvöldi. Í verðlaun er gjafakort í Golfskálanum að upphæð kr. 5.000 og hljóta eftirfarandi GR-konur slík verðlaun:

Besta skor 28. janúar: Helga Ívarsdóttir 26 högg
Besta skor 4. febrúar: Ragnheiður Víkingsdóttir 27 högg
Besta skor 11. febrúar: Magdalena M. Kjartansdóttir 27 högg
Besta skor 18. febrúar: Sólveig Pétursdóttir 26 högg
Besta skor 25. febrúar: Margrét Karlsdóttir 28 högg
Besta skor 3. mars: Sólveig Jóna Ögmundsdóttir 27 högg
Besta skor 10. mars: Helga Tryggvadóttir 26 högg

Hægt verður að nálgast verðlaunin á skrifstofu klúbbsins frá og með miðvikudeginum 6. maí.

Við hlökkum mikið til að starfa með ykkur áfram í vor og sumar. Við erum þessa dagana að skipuleggja sumarstarfið og munum kynna dagskrána nánar þegar nær dregur. Sumarstarfið verður bæði með hefðbundnu sniði og einnig munu nýjungar líta dagsins ljós. Við tökum tillit til þeirra aðstæðna sem ríkja hverju sinni og virðum reglur um samkomubann, snertifleti og 2ja metra fjarlægðarbil.

Við hefjum leikinn með 9.holu opnunarmóti GR-kvenna þegar vellirnir hafa opnað, nánari útfærsla verður kynnt síðar en mótið fer fram á heimavelli.

Sumarmótaröðin byrjar miðvikudaginn 20. maí. og spilað verður annan hvern miðvikudag fram í lok júlí, alls sex skipti. Undantekning er að leikið verður 24.júní í stað 17.júní. Meistaramótið er svo á sínum stað í júlí og haustmót GR kvenna í september.

Við í kvennanefndinni hlökkum mikið til að starfa með ykkur áfram í vor og sumar, allar ábendingar um starfið eru vel þegnar sem og ef þið hafið möguleika á að aðstoða með vinninga fyrir komandi mót.

Með sumarkveðju frá Kvennanefnd GR 2020:
Guðrún Óskarsdóttir
Inga Nína Matthíasdóttir
Kristín Nielsen
Ljósbrá Baldursdóttir
Sigríður Oddný Marinósdóttir
Þórey Jónsdóttir

Til baka í yfirlit