Bændaglíma GR 2018: Þema verður Villta vestrið

Bændaglíma GR 2018: Þema verður Villta vestrið

Bændaglíma GR 2018: Þema verður Villta vestrið – þátttakendur hvattir til að dusta rykið af kúrekahöttum, stígvélum og tóbaksklútum

Bændaglíma Golfklúbbs Reykjavíkur 2018 verður haldin á Korpúlfsstaðavelli laugardaginn 22. september. Mótið er síðasta innanfélagsmót ársins svo um er að gera að skrá sig til leiks og loka golfsumrinu með stæl. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í liðakeppni. Nándarverðlaun verða veitt þeim leikmanni sem næstur er holu eftir upphafshögg á öllum par 3 holum vallarins. Lykkjur mótsins eru Sjórinn/ Áin.

Tekið verður á móti þátttakendum með borði hlaðið veitingum í klúbbhúsi áður en leikur hefst. Að leik loknum verður blásið til kvöldverðar, matreiddum af Herði „James“ og hans góða starfsfólki.

Kvennanefnd GR mun mæta á svæðið og framreiða veitingar ofan í keppendur á meðan á leik stendur. Mótssstjóri verður stjórnarkonan Anna Björk Birgisdóttir. Veislustjóri verður enginn annar en stórkylfingurinn Böðvar Bergsson.  Aðalnúmer kvöldsins verður svo kynnt þegar nær dregur. Að verðlaunaafhendingu lokinni verða óvæntar uppákomur og heyrst hefur að okkar vinsæli félagsmaður, Böddi Bergs „Wayne“, muni leiða línudans og að því loknu verður dansað fram eftir nóttu.

Skráning í mótið hefst þriðjudaginn 18. september kl. 12:00 á www.golf.is. Hámarksfjöldi er 132 keppendur.

Við minnum á að aldurstakmark til þátttöku er 20 ár.

Mæting í mótið er kl.13:00 og verður ræst út af öllum teigum samtímis kl.14:00. Mikilvægt er að þeir sem ætla að spila saman í holli séu skráðir saman í rástíma. Mótsgjald er 6.800 kr. á mann og greiðist hjá veitingasala þegar mætt er.

Leikfyrirkomulag mótsins er Texas scramble höggleikur með forgjöf, fjórir leikmenn saman í liði. Forgjöf liðs er samanlögð vallarforgjöf leikmanna deilt með 10. Hámarksforgjöf sem gefin er til hvers leikmanns er 36. Til að gera leikinn ennþá skemmtilegri verður eftirfarandi regla í gildi: Skylt verður að velja að minnsta kosti tvö teighögg frá hverjum liðsmanni.  Annað hinna völdu teighögga verður að vera á par 3 holu.

Bændur í ár verða hjónin Steinunn Bragadóttir og Brynjar Jóhannesson. Þau eru mörgum GR-ingum vel kun enda miklir kylfingar og stuðboltar þar að auki.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Kveðja,
Stjórn og starfsmenn Golfklúbbs Reykjavíkur.

Til baka í yfirlit