Það er ekki hægt að ljúka golfsumrinu 2021 án þess að halda síðasta innanfélagsmót ársins, sjálfa Bændaglímuna sem haldin verður laugardaginn 25. september á Grafarholtsvelli. Ræst verður út af öllum teigum kl. 12:00 og verður þema dagsins hvítt.
Tekið verður á móti þátttakendum með pyluspartýi og öðrum veigum – föstum og fljótandi, áfengum og óáfengum. Mjöll og Guðmundur hjá KH Klúbbhús verða bændur í mótinu og munu keppendur skiptast í lið þeirra – Korpu og Holtið.
Mótsgjald er kr. 7.000 á mann og greiðist hjá veitingasala þegar mætt er til leiks.
Mæting í klúbbhús kl. 11:00 og ræst út af öllum teigum samtímis kl. 12:00.
Leikfyrirkomulag mótsins er Texas scramble höggleikur með forgjöf, fjórir leikmenn saman í liði. Forgjöf liðs er samanlögð vallarforgjöf leikmanna deilt með 10. Hámarksforgjöf sem gefin er til hvers leikmanns er 36. Til að gera leikinn ennþá skemmtilegri verður eftirfarandi regla í gildi: Skylt verður að velja að minnsta kosti tvö teighögg frá hverjum liðsmanni. Annað hinna völdu teighögga verður að vera á par 3 holu.
Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í liðakeppni og nándarverðlaun þeim leikmanni sem næstur er holu eftir upphafshögg á öllum par 3 holum vallarins.
Að leik loknum, um kl. 18:00, verður blásið til borðhalds í Grafarholtsskála og mun sjálfur regluvörðurinn mæta og keyra stemmninguna af stað. Boðið verður upp á grillað lambafillet með gratinkartöflum, rótargrænmeti, salati og villisveppasósu.
Í eftirrétt verður boðið upp á úrval af konfekt eftirréttum með kaffinu og mun Jón Sigurðsson aka500kallinn troða upp. Jón Sigurðusson aka500kallinn er þekktur fyrir að vera botnlaus uppspretta af einhverju og hefur brjálæðislega gaman af því að koma fram og skemmta með gítarinn og falsettuna að vopni!
Félagsmenn mega eiga von á hressandi kvöldi í frábærum félagsskap á þessu lokakvöldi tímabilsins.
Skráning í mótið hefst þriðjudaginn 21. september kl. 13:00 og fer fram í rástímabókun á Golfbox:
Valinn er völlurinn „Bændaglíma GR 2021“ á dagsetningu mótsins 25.09.2021. Hámarksfjöldi er 124 keppendur. Mikilvægt er að þeir sem ætla að spila saman í liði séu skráðir saman í rástíma. Daginn fyrir mót verða réttir rásteigar sendir út á keppendur.
ATH! Skráningu lýkur kl. 14:00 föstudaginn 24. september.
Við minnum á að aldurstakmark til þátttöku í Bændaglímu er 20 ár.
Hlökkum til að sjá ykkur!
Stjórn og starfsfólk Golfklúbbs Reykjavíkur