Bændaglíma GR var leikin á laugardag – bændur þurftu að melta lokastöðu liða

Bændaglíma GR var leikin á laugardag – bændur þurftu að melta lokastöðu liða

Á laugardaginn var haldin hin árlega Bændaglíma Golfklúbbs Reykjavíkur. Keppnisfyrirkomulagið var fjögurra manna Texas Scramble. Leikið var með forgjöf sem var samanlögð forgjöf keppenda hvers liðs deilt með 10. Að venju var keppendum auk þess skipt upp í tvö lið sem heyrðu undir sitt hvorn bóndann, en bændur í ár voru Stefán Steinsen og Steingrímur Gautur Pétursson. Þema bændaglímunnar í ár var 80´s stíllinn. Steingrímur (LeBon) fór fyrir Duran Duran liðinu og Stefán (Kyriacos .aka George Michael) fyrir Wham liðinu.

Nettóskor Wham liða var 940 högg og Duran liða var 942 högg og getur varla verið um jafnari keppni að ræða en 15 lið tilheyrðu hvorum hópi. Voru bændur smá stund að melta þessi úrslit.

Nándarverðlaun voru veitt á öllum par 3 holum og voru eftirfarandi keppendur næstir holu:

2.braut - Óttar Helgi Einarsson, 6,95 m.
6.braut - Davíð Guðmundsson, 3,60 m.
11.braut - Ingunn Erla Ingvadóttir, 1,05 m.
17.braut - Rebecca Oqueton Yongco, 4,55 m.

Veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í Texas Scramble liðakeppni og urðu úrslitin þessi:

  1. Knútur Bjarnason, Helga Friðriksdóttir, Kristján Ólafsson, Kristján Þór Sveinsson; heildarskor 62 högg - forgjöf 4, nettó skor 58                   
  2. Guðmundur B Harðarson, Rut Hreinsdóttir, Jónas Gunnarsson, Halldór Oddsson; heildarskor 64 högg - forgjöf 5, nettó skor 59 (seinni 9 á 30 nettó)                                                   
  3. Valgeir E Ómarsson, Helga L Bjarnadóttir, Magnús Bjarnason, Davíð Guðmundsson; heildarskor 63 högg - forgjöf 4, nettó skor 59 (seinni 9 á 31 nettó)                                                   

Liðið sem varð í fjórða sæti var endaði einnig á 59 nettó, með 32 högg á seinni 9 holunum. Í því liði voru Drífa Daníelsdóttir, Kristinn Skúlason , Kristján Daníelsson og Sigríður Halldórsdóttir.

Meðan á bændaglímunni stóð var kvennanefnd GR ötul við að bera veitingar í keppendur við góðar undirtektir kylfinga. Að leik loknum var slegið upp fagnaði í golfskálunum en þar var Björk Jakobsdóttir veislustjóri og fórst það vel úr hendi, auk þess að hún flutti uppistandsatriði við mikinn fögnuð veislugesta. Lauk síðan fögnuði með líflegum 80´s tónum frameftir.

Golfklúbbur Reykjavíkur vill koma á framfæri kæru þakklæti til kvennanefndar klúbbsins og þeirra bænda Stefáns og Steingríms sem tóku hlutverkið að sér af heilum hug og alla leið.

Þökkum félagsmönnum fyrir frábært tímabil!

Til baka í yfirlit