Bréf fá formanni - Grafarholtsvöllur

Bréf fá formanni - Grafarholtsvöllur

Kæru félagar, 

Ég þakka ykkur traust og stuðning sem mér og stjórn var sýndur á aðalfundi félagsins í síðustu viku. 

Fyrir nokkrum árum var gerð viðamikil skoðanakönnun meðal félagsmanna.  Niðurstöður könnunarinnar voru afgerandi um að bygging íþróttahúss (inniæfinga- og félagsaðstöðu) og endurbætur á Grafarholtsvelli skyldu vera forgangi.  Þessi pistill verður um Grafarholtið og verður því í lengri kantinum.  Í næstu pistlum og fréttabréfum mun ég fjalla um önnur brýnustu málefnin.

Grafarholtsvöllurinn var hannaður af Svíanum Nils Skjold.  Árið 1963 var byrjað að leika á nokkrum holum og svo voru fleiri og fleiri holur smátt og smátt teknar í notkun.  Gerð golfvallar í Grafarholti var meiriháttar átaksverkefni á sínum tíma og magnað að hópur áhugakylfinga hafi ráðist í annað eins, fjarri byggðinni í Reykjavík á þeim tíma.  Hönnun og gerð vallarins heppnaðist með ólíkindum vel.  Brautirnar eru eins fjölbreyttar og þær verða.  Engar tvær brautir liggja í sömu átt, sumar þeirra liggja í mishæðóttu landslagi en aðra á flatlendi.  Brautirnar eru lagðar í grýttu en gróðursælu holti sem umlykur þær. Flestar holur eru þannig að kylfingurinn stendur frammi fyrir ákvarðanatöku á teig hversu grófa skotlínu skuli taka og með hvaða kylfu, við síbreytilegar aðstæður.  Freistingar til áhættutöku eru um allan völl.  Eins og á  mörgum eldri völlum eru flatirnar litlar og kalla á nákvæmni í innáhöggum. Þær eru hallandi og erfiðar í lestri, sem gefur heimamönnum sem þekkja þær ákveðið forskot.  Þannig eru góðir heimavellir.  Karakterinn í vellinum er einstakur og hversu skemmtilegur hann er í spili.

Teikning vallarins frá Nils Skjold hefur haldið sér merkilega vel þó völlurinn hefur verið betrumbættur í gegnum tíðina á ýmsan hátt.  Félagsmaður sem þekkir vel til sagði mér að einungis ein flöt vallarins í dag, sú þriðja, sé upprunaleg, allar hinar hafi verið endurbyggðar.  Völlurinn hefur því fengið að þróast eins og flestir eldri golfvellir.

Helsti veikleiki vallarins í dag eru ósléttar brautir.  Gefist hefur verið upp á að spila hreyfingarlaust golf - kylfulengdarhreyfingar leyfðar - sem er ekki í samræmi við aðalreglu golfsins sem er hreyfingarlaust golf.  Einnig er mikill áhugi á því að endurbyggja flatir eftir nútíma aðferðum.

Endurbætur á dagskrá

Fyrir nokkrum árum leitaði stjórn GR til skoska golfvallararkitektsins Tom McKenzie um að hanna nauðsynlegar endurbætur á vellinum.  Hann vann sitt verk og kynnti sínar hugmyndir í ítarlegri skýrslu, sem hann kynnti á aðalfundi í klúbbnum.  Ein hugmyndin (ekki ákvörðun) var að vellinum yrði lokað í 2-3 ár, meðan völlurinn yrði endurnýjaður nánast í heild sinni, eða í tveimur jafnlöngum áföngum.  Þetta voru félagsmenn ekki tilbúnir í.  Helstu rökin gegn þessu voru að félagsmenn geti ekki verið án vallarins og að þetta yrði óvissuferð í meira lagi.  Þá voru skoðanir félagsmanna á hönnunartillögum skiptar, sérstaklega í hópi „uppalinna  Grafarholtsmanna“.  Síðan þá hefur vinnan með Tom haldið áfram og tillögur uppfærðar.  Stjórn GR hefur samþykkt að vinna eftir því sem nefnt er uppfært masterplan frá honum.  Tom hefur sýnt klúbbnum mikla þolinmæði og virðingu.  Samskipti og samvinna við hann hafa verið góð.  Hann er arkitekt sem hefur komið að endurbótum á mörgum þekktustu völlum heims, sem sýnir að hann nýtur virðingar í faginu.  Margt í hans tillögum er vel athugað og blasir ekki við okkur áhugakylfingum.  Við skulum þó einnig hafa hugfast að sýn hans á völlinn er önnur en okkar sem höfum spilað hann í áratugi í jafnvel þúsundir skipta.  Hvernig við sjáum og upplifum völlinn, hvað okkur finnst skemmtilegt, skiptir að sjálfsögðu ekki síður máli.

Í síðasta mánuði hófust framkvæmdir af krafti á fyrsta áfanga endurbótanna.  Fyrsti teigur verður endurgerður, fjórir framteigar endurgerðir, öll 18. brautin tekin upp, endurmótuð og sléttuð og nýjar flatir á 1. og 14. braut byggðar upp fyrir aftan núverandi flatir.  Hugsunin á bak við að byrja þarna var að þessi verkefni eru aðkallandi og liggja tiltölulega beint við samanborið við ýmis önnur verkefni sem þarfnast meiri umræðu í klúbbnum.  Framangreind verkefni eru hafin af miklum krafti. Klúbburinn hefur fjárfest í nýjum tækjum sem munu verða í fullri vinnu næstu árin og margborga sig upp.  Vallarstarfsmenn okkar voru tilbúnir og vinna af miklum krafti.

Ég líkt og aðrir legg mikla áherslu á að vel takist til.  Eins og að framan er getið er mér annt um Holtið umleikis brautirnar og það þarf að vernda eins og frekast er unnt.  Þá er mikilvægt að þegar sléttað verður úr brautum verði þær vandlega mótaðar, þannig að þær haldi Grafarholtseinkennum sínum.  Það gildir einnig um endurbyggingu flata.  Fara þarf saman vönduð hönnun og vönduð framkvæmd.  Verkin eru unnin eftir bestu þekkingu.  Vert er að nefna að þegar 3. og 4. braut voru sléttaðar á þar síðasta áratug var það gert með því að bera nýtt efni ofan brautirnar og tyrfa yfir.  Kostur þeirrar aðferðar er að svo fremi að gott torf sé tiltækt, þá er hún fljótunnin og unnt að hefja leik fljótlega eftir tyrfingu.  Sléttun 18. brautarinnar nú er unnin með gerólíkum hætti, þar sem jarðvegurinn hefur verið tekinn upp og  grjóthreinsaður.  Grjótmagnið er með ólíkindum!  Því næst verður jarðvegurinn mótaður og sáð í hann í vor.  Ráðgjafar segja þessa aðferð nútímanlegri og skila betri gæðum til framtíðar.   Þetta er prófraun hjá okkur og felur ekki í sér að hin aðferðin hafi verið afskrifuð til framtíðar.  Við áætlum að framan af næsta sumri verði 18. brautin spiluð sem par 3 af bráðabirgðateig.  Björtustu vonir eru að unnt verði að taka hana aftur í gagnið öðru hvoru megin við meistaramótið en hvort það sé raunhæft verður að koma í ljós.  Við munum draga lærdóm að því hvernig til tekst og á hve löngum tíma, bera saman aðferðir og byggja á nýrri reynslu við sléttun næstu brauta í röðinni.  Hið sama er að segja um endurbyggingu nýju flatanna. Þó að við viljum engin mistök sjá, þá verðum við að vera á tánum, viðurkenna ef hlutir mega fara betur og endurmeta stöður í því ljósi.

Samráð við klúbbfélaga

Það er von mín að félagsmenn fylgist vel með og þegar vel tekst til, þá sannfærumst við um að við séum á réttri leið.  Ég mun leggja til við stjórn að fyrrnefnt masterplan verði kynnt félagsmönnum sem allra fyrst, en það kallar á smá frágang fyrst.  Planið er ekki meitlað í stein og ég bið ykkur að taka því þannig er að kemur. Einu framkvæmdirnar sem hafa verið endanlega ákveðnar eru þær sem að framan er getið um.  Ég mun einnig leggja til við stjórn að skipuð verði vallarnefnd Grafarholts sem valinkunnir GR-ingar utan stjórnar komi að. Hún fái fyrst um sinn það hlutverk að yfirfara planið og gera tillögur um verkefni næsta áfanga.  Félagsmenn fái einnig gátt til að koma á framfæri ábendingum.  Álit vallarstarfsmanna okkar verði einnig fengið.  Ég vil stefna að því að áform um hvern áfanga verði ákveðin að vori hvers árs og kynnt.  Sumarið verði tíminn til að melta, undirbúa, og ákveða endanlega.  Félagsmenn verði þannig upplýstir í tíma, þeir geti tekið þátt og fylgst með.  Það er von mín að svona verklag stuðli að sem bestum ákvörðunum, það hjálpi stjórninni og að sem víðtækust sátt verði um það sem verður gert. 

Ég óska ykkur og ykkar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.  Mætum vel undirbúin á nýju golfári og ég hlakka til að sjá ykkur, í Básum og á golfvöllunum.

Gísli Guðni Hall 

Til baka í yfirlit