Bréf frá formanni - apríl 2017

Bréf frá formanni - apríl 2017

Gleðilegt sumar!

Þó að enn láti vetur konungur á sér kræla og hitastigið sé eitthvað frá sínu besta þá er engum blöðum um það að fletta að golfsumarið 2017 er á næsta leiti og því ber að fagna.

Það er ávallt spenna í kylfingum á vorin og stærsta spurningin gjarnan; hvenær opna vellirnir? Það er því sérstakt ánægjuefni að geta tilkynnt ykkur það. Grafarholtið mun opna með Opnunarmóti laugardaginn 6. maí og Opnunarmót Korpunnar verður degi síðar, eða þann 7. maí. Það eru því spennandi tímar framundan. Það er ekki oft sem tækifæri gefst til þess að opna Grafarholtið á undan Korpunni, en það má segja að þetta sé til marks um hve vellirnir koma vel undan vetri.

Og já, þeir koma virkilega vel undan vetri. Grafarholtið er sérstaklega glæsilegt og ég tel næsta víst að nú þurfi að fletta upp í elstu mönnum til þess að athuga hvort völlurinn hafi nokkru sinni verið jafn flottur á þessum árstíma og nú, það er mér til efa. Völlurinn er iðagrænn og fallegur og má því vissulega þakka, að hluta, hagfelldum vetri en einnig góðri vinnu starfsmanna vallarins sem hafa verið vakandi yfir honum í allan vetur og passað vel. Korpan lítur einnig glæsilega út, en þar er nú munurinn hugsanlega minni á milli ára þar sem sá völlur stendur sig gjarnan betur á vorin en Holtið.

Á Korpunni hefur starfsfólk og sjálfboðaliðar látið hendur standa fram úr ermum og hefur veitingaaðstaðan verið endurnýjuð frá grunni. Nú tekur á móti okkur glæsilegur veitingastaður á Korpu við opnun vallarins. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim fjölmörgu aðilum sem hafa lagt hönd á plóginn og sannað að sjálfboðaliðastarfið er ekki dautt úr öllum æðum.

Og talandi um sjálfboðaliðastarf. Áður en vellir opna verður boðað til hreinsunarstarfs á báðum völlum. Ég bið ykkur að taka vel í þá bón og fjölmenna. Við viljum jú öll að vellirnir okkar séu snyrtilegir og til þess að svo megi verða er mikilvægt að leggja hönd á plóg. Saman getum við gert mikið á skömmum tíma. Tímasetningar verða auglýstar á næstu dögum.

Það verður því sérstaklega spennandi að opna með ykkur vellina aðra helgi og sjá hvað ykkur, félagsmönnum í GR, finnst til þeirra og aðstöðunnar koma. Vonandi sjá sem flestir sér fært að taka þátt í opnunarmótunum, en skráning hefst nú eftir helgina.


Með GR kveðju,
Björn Víglundsson

Til baka í yfirlit