Bréf frá formanni - apríl 2021

Bréf frá formanni - apríl 2021

Ágætu félagar,

Sól er farin að hækka á lofti og félagsmenn orðnir óþreyjufullir að bíða eftir opnun valla.

Vorið var heldur svalt á okkur og nú er unnið hörðum höndum að opnun valla. Eins og mál standa er horft til annarrar helgar maí, en það kemur betur í ljós á næstu dögum. Vonandi verða hitatölur okkur hliðhollar.

Fyrir síðustu áramót var gerð skoðanakönnun meðal félagsmanna. Eitt af því sem klúbburinn hefur skoðað sérstaklega er aukið aðgengi að rástímum. Í fyrra var bil á milli rástíma minnkað úr 10 í 9 mínútur.  Þessi aðgerð gekk mjög vel, okkur tókst að auka framboð á rástímum án þess að það hefði neikvæð áhrif á leikhraða. Við höfum því ákveðið að aðgengi enn frekar og minnka bilið um eina mínútu til viðbótar á öðrum hverjum rástíma, þ.e. ræst verður út með 8 og 9 mínútna millibili.  

Með breytingunni sem gerð var í fyrra gátum við fjölgað rástímum um 12%, eða 120 fleiri kylfingar á dag.  Með þeirri breytingu sem nú er kynnt getum við aukið framboðið enn frekar, eða um 64 á dag (á öllum völlum). Við höfum því aukið framboð á rástímum um 18% með þessum aðgerðum.

Í takt við aukið framboð rástíma verður eftirlit með leik á völlum einnig aukið verulega. Búið er að ráða 8 eftirlitsmenn til starfa, 4 á hvorn völl og verður eftirlitsmaður á vakt frá kl. 07:30 til kl. 21:00 alla daga. Samhliða verða tveir eftirlitsmenn á vakt yfir háannartíma til að gæta leikhraða og þjónustu við félagsmenn. Eftirlitsmenn munu einnig vera til taks fyrir félagsmenn til að aðstoða við innskráningar í rástíma á Golfbox.

Í vetur var undirritaður samningur við ÍSAM um rekstur golfverslana klúbbsins. Boðið verður upp á stóraukið vöruúrval í bættum golfverslunum en framkvæmdir hafa staðið yfir á undanförnum mánuðum og verður gaman að taka á móti félagsmönnum í breyttu húsnæði golfverslana.

Framkvæmdir hafa einnig staðið yfir í eldhúsum hjá veitingasala í báðum klúbbhúsum og lokahönd verið lögð á framkvæmdir sem hófust á síðasta ári í golfskála Grafarholts. Þau Guðmundur og Mjöll verða áfram með veitingarekstur og munu bjóða upp á nýjungar sem kitla bragðlaukana á komandi sumri.

Stjórn félagsins vinnur nú hörðum höndum að því að ljúka endanlegum teikningum af bættri inniæfingaaðstöðu félagsins sem kynnt verður fyrir félagsmönnum á næstu vikum. Aðgengi að golfiðkun allan ársins hring mun bætast svo um munar og verður spennandi að kynna þessar breytingar eins og fyrr segir. 

Næstu daga fram að opnun munum við upplýsa félagsmenn um mikilvæg atriði fyrir komandi sumar. Til að mynda staðfestingar á rástímum, staðarreglur, reglur v/Covid og fleira. Við hvetjum félagsmenn til að fylgjast vel með á miðlum félagsins.

Biðin er brátt á enda, ég óska ykkur öllum gleðilegs golfsumars!

Björn Víglundsson,
Formaður GR

Til baka í yfirlit