Bréf frá formanni - desember 2018

Bréf frá formanni - desember 2018

Þá er Aðalfundur 2018 afstaðinn. Ég vil byrja á því að þakka fyrir það traust sem mér er sýnt og hef ég því mitt fimmta starfsár sem formaður GR. Tíminn er fljótur að líða og mér finnst eins og ég hafi tekið við þessu verkefni í gær. En það er líka margt spennandi fram undan og mörg verk óunnin.

Ég vil líka þakka stjórn og starfsfólki GR fyrir gott ár. Rekstrarniðurstaða klúbbsins er mjög ásættanleg, okkur tókst að greiða upp allar skuldir á árinu og skila ágætum afgangi. Því er ekki síst að þakka góðu starfi þeirra sem fyrir klúbbinn starfa og færi ég starfsfólki og framkvæmdastjóra mínar bestu þakkir. Því höfum við getað lagt 50 mkr til hliðar í sérstakan framkvæmdarsjóð og er það markmið stjórnar að halda áfram að leggja til hliðar næstu árin til þess að mæta þeim framkvæmdum sem stefnt er að á næstu árum.

Árið sem nú er að líða verður ekki endilega í minnum haft sem besta golfár sögunnar. Til þess var vökvunarkerfi almættisins allt of duglegt. En það sem við munum minnast er að leikið var golf inn á sumarflatir næstum alla daga í nóvember og lokaði völlurinn ekki fyrr en í síðustu viku mánaðarins. Það þykir góður sumarauki og nýttu fjölmargir sér það að geta leikið golf í skammdeginu.

 Á Aðalfundi er hefð fyrir því að veita Háttvísibikarinn, en hann er gjöf GSÍ, ætlaður þeim sem þykir hafa skarað fram úr er varðar góða ástundun og háttvísi í barna- og unglingastarfi klúbbsins. Að þessu sinni hlaut Elvar Már Kristinsson bikarinn. Er hann vel að þessari viðurkenningu kominn og óska ég honum til hamingju með heiðurinn.

Að lokum vil ég þakka félagsmönnum öllum fyrir golfsumarið 2018 með von um að golfguðirnir verði okkur hliðhollir á komandi ári.

Ég óska félagsmönnum GR og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Með GR kveðju,
Björn Víglundsson

Til baka í yfirlit