Bréf frá formanni - janúar 2021

Bréf frá formanni - janúar 2021

Spennandi ár hjá GR
Þó Þorrinn sé hafinn og orðið heldur seint í rassinn gripið vil ég samt nota tækifærið að óska GR-ingum nær og fjær gleðilegs nýs árs. Það ætti líka margt að gleðja okkur þessa dagana enda er spennandi ár í vændum hjá klúbbnum.

Í lok síðasta árs voru stefnumál stjórnar GR kynnt félagsmönnum. Í framhaldi þeirrar kynningar var svo gerð skoðanakönnun meðal félagsmanna um hug þeirra til þessarar stefnu. Þátttakan í könnuninni var mjög góð og voru niðurstöður þær helstar að meira en 90% félagsmanna höfðu kynnt sér stefnu stjórnarinnar og 95% félagsmanna voru henni samþykk. Það er sterkt umboð fyrir stjórn að vinna með.

Við höfum því tekið til óspilltra málanna með forgangsmál stjórnarinnar í þessari stefnu. Á fyrstu dögum ársins var send út beiðni til nokkurra verktaka um tilboð í byggingu nýs íþróttahúss við Bása. Gert er ráð fyrir að tilboðin berist í lok febrúar og stefnt að því að hefja framkvæmdir með vorinu og opna nýja og glæsilega æfingaaðstöðu áður en árið er úti.

Þegar húsið verður klárt verður GR með tæplega 1.000 m2 upphitað æfingahús þar sem hægt verður að æfa stutta spilið, pútta og spila golf í golfhermum. Með þessu náum við frábærri samþættingu núverandi æfingasvæðis í Básum við fullkomið 12 mánaða íþróttahús.

Þá heldur undirbúningur, þar sem klúbburinn nýtur samstarfs við færstu sérfræðinga á þessu sviði,  vegna fyrsta áfanga endurbyggingar vallarins í Grafarholti áfram og er það von stjórnar að hægt verði að kynna félagsmönnum frekari áform í þeim efnum á næstu vikum. Tækifæri eru til lengingar vallarins í tengslum við framkvæmdirnar. Gert er ráð fyrir að sjöunda holan haldi fullri lengd, eða jafnvel lengist af hvítum teigum og þá mun áttunda holan lengjast um 40-50 metra af gulum teigum og 20-30 metra af hvítum teigum, gangi þessar hugmyndir eftir.

Eins og sagt var þegar hugmyndirnar voru kynntar er hönnun enn í fullum gangi. Ég hvet þá sem hafa fyrirvara á þessum framkvæmdum að bíða átekta eftir þeirri vinnu og móta skoðun sína á verkinu þegar allar staðreyndir liggja fyrir. Markmið stjórnarinnar eru skýr, að gera glæsilegan golfvöll enn betri. Ekkert verður ákveðið eða hvað þá heldur framkvæmt fyrr en kynning hefur farið fram.

Það er eins og jólin hafi verið gær, Þorrinn hafinn og því stutt í vorið. Tíminn líður hratt og leyfum okkur að hlakka til vorsins með grænu grasi og fullt af golfi.

Með golfkveðju,

Björn Víglundsson,
Formaður GR

Til baka í yfirlit