Bréf frá formanni - maí 2019

Bréf frá formanni - maí 2019

Gleðilegt golfsumar. Vorið hefur verið okkur hliðhollt, veturinn sæmilega mildur og fyrir vikið hafa flestir vellir opnað fyrr og í betra ástandi en undanfarin ár. Því ber að fagna og vonandi halda veðurguðirnir áfram að vera jákvæðir.

Helsta verkefni hvers vors hjá Golfklúbbi Reykjavíkur er að sjálfsögðu að koma völlunum okkar í gang og reyna að opna þá eins fljótt og auðið er. Það gekk vel nú í vor, það er okkar mat að við séum 4-6 vikum á undan meðalári hvað varðar gæði og vöxt þess græna. Vellirnir opnuðu óvenju snemma, sem er auðvitað frábært. Það veldur þó vandræðum er varðar verkefni og slátt, en GR treystir að miklu leiti á sumarstarfsfólk. Þau koma, eðli málsins samkvæmt, ekki til vinnu svona snemma á vorin. Ég vil því þakka okkar starfsfólki fyrir mikla og góða vinnu nú í vor, með þeim höndum sem til taks voru. Að mínu mati hefur þetta ekki komið niður á gæðum, en það er auðvitað gott að minna á að enn eru mörg verkefni óunnin og biðjum við um þolinmæði gagnvart þeim.

Korpúlfsstaðavöllur opnaði með opnunarmóti, þann 1. maí s.l. samanborið við 12. maí í fyrra. Grafarholtið opnaði síðan þann 4. maí s.l. en opnaði ekki fyrr en 26. maí á síðasta ári. Ekki nóg með að við höfum opnað mun fyrr, heldur er ástand beggja valla mun betra en á sama tíma í fyrra.

Árið 2019 er afmælisár Golfklúbbs Reykjavíkur, en við fögnum 85 ára afmælinu. Af því tilefni verður margt skemmtilegt gert í sumar og hápunktarnir verða árlegt Meistaramót og svo Íslandsmótið í höggleik sem haldið verður í Grafarholtinu í ágúst. Afmælisdagskráin verður betur auglýst síðar og vonandi sjá sem flestir sér fært að taka þátt í einhverjum viðburðanna. Það er mitt mat að afmælisbarnið beri aldurinn vel og ég vona að þú sért því sammála, lesandi góður.

Í Básum er líka mikið að gerast, en á næstu dögum munum við opna formlega nýtt og glæsilegt kerfi, Trackman Range, sem bætir nýrri vídd inní golfæfingarnar og er bylting fyrir æfingasvæðið í Básum. Kerfið verður kynnt nánar á næstu dögum, en nú þegar er hægt að koma og prófa þó að uppsetningu sé ekki 100% lokið.

Nú er hins vegar tíminn til að njóta golfsumarsins 2019, drífðu þig út á völl eða uppí Bása. Sumarið er tíminn, njótum þess á golfvellinum.

Með GR kveðju,
Björn Víglundsson

Til baka í yfirlit