Bréf frá formanni - mars 2018

Bréf frá formanni - mars 2018

Þá er Þorrinn liðinn og mesta kvöl kylfinga senn á enda, veturinn. Hann hefur verið harður, en það bítur ekki á okkur og glöð höldum við inn í skemmtilegustu mánuði ársins, hækkandi sól með tilhlökkun fyrir komandi golfvertíð.

En úr því að ég minnist á veturinn er rétt að nefna það sem á hefur gengið síðustu vikurnar. Snjór og klaki hefur legið yfir völlunum okkar undanfarnar vikur. Það hefur kallað á fjölmörg verkefni starfsmanna og hefur snjóhreinsun og klakabarátta litað þær vikur sem liðnar eru af ári. Í síðustu viku brast svo á með mikilli hláku sem hreinsaði nánast allan snjó af völlunum á einum sólarhring, þá kom afrakstur vinnu vetrarins vel í ljós og erum við nokkuð bjartsýn þegar þessi orð eru rituð. Enn eru nokkrar vikur eftir af vetri og of snemmt að hrósa happi, en þó er alveg ljóst að breytt aðferðarfræði við vinnu yfir vetrarmánuðina hjálpar mikið þegar veðurguðirnir minna á sig.

Á Korpunni hefur ekki aðeins verið unnið úti, því uppfærsla á búningsklefum karla og kvenna er í fullum gangi. Þegar við opnum völlinn í vor verður búið að endurnýja alla aðstöðuna, sturtur, búningsaðstöðu með læstum skápum og salernisaðstöðu. Lýkur þar með verkefninu, sem hófst í fyrra, við að lyfta upp aðstöðu okkar kylfinga á Korpunni fyrir og eftir leik. Enn og aftur fáum við ómælda aðstoð frá félagsmönnum við þessar framkvæmdir og það er sérstök ástæða til þess að hrósa meðlimum Elítunnar fyrir óeigingjarnt starf fyrir klúbbinn.

Þá hefur vinna við stefnumótun GR haldið áfram og stærsta verkefnið á þeim verklista er auðvitað fjármögnun og tilhögun nýrrar inniæfingaðstöðu fyrir félagsmenn. Því verki miðar vel og er það markmið stjórnar GR að áður en vellir opna í vor verði komin mjög skýr mynd á þetta verkefni. Nánar um það síðar.

Í Básum er lífið einnig að færast í aukana. Nú stendur yfir uppfærsla á boltasölukerfinu sem mun einfalda afgreiðslu, minnka kostnað og auka þjónustu. Við gerum ráð fyrir að sjálfvirkt kerfi verði komið upp síðar í mánuðinum. Þá munum við einnig setja nýja bolta í kerfið. Það er því ekki lengur eftir neinu að bíða með að kíkja á sveifluna eftir veturinn og hefja undirbúning fyrir sumarið.

Nóg að sinni, það er kominn mars og þá er stutt í sumarið. Ég hlakka til að sjá ykkur á völlunum okkar í sumar og í Básum nú á vormánuðum.

Með GR kveðju,
Björn Víglundsson

Til baka í yfirlit