Bréf frá formanni

Bréf frá formanni

Gleðilegt golfsumar

Þá er lengsta vetri mannkynssögunnar að ljúka, það má hann gjarnan gera og koma aldrei aftur. En það þýðir hins vegar bara eitt, sumarið er á næsta leiti með grænt gras og golf.

Í vetur höfum við unnið að endurbótum á golfskálanum í Grafarholti. Það verkefni gengur vel og vonumst við til þess að geta haft skálann tilbúinn þegar kylfingar mæta til leiks á opnunardegi. Salerni hafa verið endurnýjuð, skálinn málaður og snyrtur til á allan hátt. Vonandi líkar kylfingum þessar breytingar vel. Þá hefur nú verið auglýst eftir nýjum rekstraraðila að skálanum. Við þökkum fyrri rekstraraðilum fyrir gott samstarf og bíðum spennt samstarfs við nýja rekstraraðila.

Barna og unglingastarf hefur, vegna aðstæðna, verið heldur óvenjulegt seinni part vetrar. Nú horfum við fram á bjartari tíma og eftir tilslakanir á samkomubanni þann 4. maí n.k. er líklegt að æfingastarfið geti haldið áfram af fullum krafti. Þá gerum við einnig ráð fyrir að geta opnað Bása og önnur æfingasvæði okkar. Grípa þarf til ýmissa ráðstafana til þess að tryggja að sameiginlegir snertifletir séu ekki til staðar eða sótthreinsaðir og vinnur starfsfólk GR að lausnum í þeim efnum. Þegar við opnum viljum við tryggja að öllum sé óhætt að heimasækja íþróttamannvirki Golfklúbbs Reykjavíkur.

Það hafa allir mestan áhuga á að vita hvenær vellir opni. Það liggur ekki fyrir þegar þessi orð eru rituð, en starfsfólk Golfklúbbs Reykjavíkur leggur metnað sinn í það að opna þá eins fljótt og kostur er. Vellirnir koma ágætlega undan vetri, frostlyftingar í brautum eru talsverðar en lítið sem ekkert kal í flötum. Það eru frábærar fréttir og veit á gott fyrir golfsumarið 2020. Nánari upplýsingar um opnun valla verða veittar um leið og þær liggja fyrir.

Mikil umræða hefur skapast um það hvort óhætt sé að leika golf eða ekki við núverandi aðstæður. Golf er frábær íþrótt þegar fólk þarf að stunda „fyrirmyndarfjarlægð“.  Að viðhalda 2ja metra reglunni er einfaldara í golfi en flestum öðrum íþróttum. Það eru þó atriði sem huga þarf sérstaklega að og ber þar helst að nefna hrífur í glompum og snertifletir í kringum holuna. Starfsfólk GR vinnur að lausnum á þessum atriðum og stefnum við ótrauð á að geta opnað velli sem fyrst og leikið golf við sem eðlilegustu aðstæður á sama tíma og við förum í einu og öllu eftir ráðleggingum sóttvarnaryfirvalda. Ég er sannfærður um að góðar lausnir finnist á því og golfsumarið verði frábært.

Nýtt kerfi, Golfbox, var tekið í notkun nú í vetur. Það kemur í stað gamla kerfisins á golf.is. Prófanir á kerfinu hafa staðið yfir frá því snemma í vetur og nú er svo komið að kerfið sjálft og appið er að mestu klárt. Ég hvet GR-inga, sem hafa ekki þegar gert það, að fara á www.golf.is , nýskrá sig inn í nýja kerfið og sækja appið í símann sinn. Vonandi reynist þetta nýja kerfi okkur vel. Á sama tíma verður rástímabókunum hjá Golfklúbbi Reykjavíkur breytt lítillega, en þær reglur sem GR hafði áður er ekki hægt að framkvæma í nýja kerfinu. Nú hefst rástímaskráning kl 22:00 á kvöldin og er þá hægt að bóka næstu 4 daga þar á eftir. Það eru ávallt skiptar skoðanir þegar kemur að reglum um rástímabókanir. Það er von okkar að nýjar reglur séu einfaldari og henti sem flestum.

Ég hlakka til að sjá ykkur á golfvellinum og vona að þið eigið ánægjulegt golfsumar. 

Með sumarkveðju,

Björn Víglundsson
formaður

 

Til baka í yfirlit