Bréf frá formanni

Bréf frá formanni

Óvenjulegu golfsumri lokið
Nú er eftirminnilegu golfsumri lokið. Golf var leikið við sérstakar aðstæður í samfélaginu og voru meira að segja sérstakar reglur teknar upp til þess að golfið gæti gengið sinn vanagang. Þrátt fyrir það var sumarið 2020 algjört metár þegar kemur að iðkun íþróttarinnar, aldrei hafa GR-ingar spilað fleiri hringi á völlum félagsins og er aukningin talin í tugum prósenta. Sömu fréttir koma frá öðrum klúbbum. Takk fyrir golfsumarið 2020.

Stórframkvæmdir á vegum Golfklúbbs Reykjavíkur
Á dögunum samþykkti stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur fyrstu drög framkvæmda. Á næstu mánuðum og misserum á að ráðast í þrjár stórframkvæmdir á vegum klúbbsins. Þau eru:

  1. Íþróttahús byggt við Bása þar sem golfhermar og aðstaða fyrir stutta spilið verði fundinn staður, við hönnun er gert ráð fyrir stækkunarmöguleikum hússins.
  2. Þjónustubygging við hlið Bása þar sem vélar verða geymdar, viðhaldsþjónustu sinnt ásamt starfsmannaaðstöðu.
  3. Fyrsti áfangi endurbyggingar vallarins í Grafarholti, áætlað er að sjöunda og ellefta braut vallarins verði fyrstar í röðinni. Lítil truflun verður á golfleik á meðan framkvæmdum stendur.

Nú er unnið að frekari útfærslum þessara framkvæmda og eiga félagsmenn von á kynningu á þessum verkefnum á næstu vikum. Markmið okkar er að hefja framkvæmdir á vormánuðum. Þetta er stór áfangi hjá GR og mun aðstaða félagsmanna til þess að stunda golfíþróttina allt árið um kring batna til mikilla muna. Það verður spennandi að sýna ykkur betur þessi áform á næstunni.


Aðalfundur
Þá vinnur stjórn nú að undirbúningi aðalfundar GR. Enn á eftir að koma í ljós með hvaða hætti aðalfundur geti farið fram við núverandi aðstæður. Við munum kynna fyrirkomulag fundarins um leið og það liggur fyrir, en stefnt er að því að hann fari fram fyrstu vikuna í desember.


Íþrótt með mikla aðlögunarhæfni
Ég leyfi mér að fullyrða að engin íþrótt hafi orðið fyrir minni röskun vegna heimsfaraldursins en golf. Það sýnir vel hversu mikla aðlögunarhæfni íþróttin og kylfingarnir hafa. Enda er ekki flókið mál að halda fyrirmyndarfjarlægð við golfleik. Eitt af vetrarverkefnum golfhreyfingarinnar er að tryggja, verði faraldurinn enn á kreiki hér í vor, að golf verði leikið næsta sumar án nokkurra truflana. Golfreglurnar og sóttvarnarreglur fara vel saman og golf er örugg og holl útivera sem mikilvægt er að kylfingar fái að stunda.

Með golfkveðju,

Björn Víglundsson
Formaður GR

Til baka í yfirlit