Breytingar á Korpu: Færsla tveggja teiga forsmekkur að því sem koma skal

Breytingar á Korpu: Færsla tveggja teiga forsmekkur að því sem koma skal

Ásamt því að undirbúa opnun Korpunnar á morgun, laugardag, hafa vallarstarfsmenn Golfklúbbs Reykjavíkur unnið hörðum höndum að framkvæmdum á 16., 18. og 20. braut vallarins, sem reiknað er með að geri góðan völl enn betri og skemmtilegri fyrir sem flesta, ef ekki alla kylfinga.

Gerður hefur verið nýr gulur teigur á 20. braut, talsvert lengra til vinstri en sá gamli. Þannig er ekki lengur slegið yfir brúna. Nýi teigurinn var staðsettur í góðu samstarfi við Stangveiðifélag Reykjavíkur, sem felur m.a. í sér að kylfingar noti gamla teiginn ef og þegar veiðistaður framan við hinn nýja teig er í notkun.

Með færslu þessa teigs fær sá gamli nýtt hlutverk sem rauður teigur á 18. braut. Hún styttist þannig verulega gagnvart notendum rauðra teiga, en til þessa hafa þeir þurft að slá boltann á flugi um 70 metra til að komast yfir ána, oft í norðan-mótvindi. Þessu nýja hlutverki hafa fylgt ýmsar framkvæmdir, eins og færsla trjáa og stígagerð, auk þess sem litla göngubrúin yfir Korpu heyrir sögunni til vegna stöðugs ágangs náttúruaflanna í síendurtekinna viðgerða. Þannig munu allir kylfingar nota gömlu Thor Jensen-brúna á hægri hönd, frá tíð mjólkurbús hans að Korpúlfsstöðum, þegar 18. braut er leikin.

Einnig er vinna hafin við að fullgera aðgreiningu 16. brautar frá gömlu 15. holunni sem lá öll meðfram Korpu, með gerð nýrra hóla og sandgryfja vinstra megin við 16. flöt. Til þessara framkvæmda hefur GR notið liðsinnis frá Edwin Roald golfvallaarkitekt og er reiknað með að það samstarf haldi áfram, m.a. við gerð nýrra fremri teiga á 17. braut.

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit