Dagbjartur Sigurbrandsson og Hulda Clara meðal keppenda á Opna breska áhugamannameistaramótinu

Dagbjartur Sigurbrandsson og Hulda Clara meðal keppenda á Opna breska áhugamannameistaramótinu

Dagbjartur Sigurbrandsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG eru meðal þátttakenda á Opna breska áhugamannameistaramótinu sem fram fer í vikunni. Mótin eru í hæsta styrkleikaflokki áhugakylfinga á heimsvísu og eiga sér bæði langa sögu.

Keppni hjá Dagbjarti fer fram á Royal Birkdale vellinum en þar hefur Opna breska meistarmótið í karlaflokki, The Open, verið haldið í 10 skipti. Hulda Clara keppir á West Lancashire vellinum í nágrenni við Liverpool. Á báðum mótum er keppt í höggleik fyrstu tvo keppnisdagana. Að forkeppninni lokinni komast 64 efstu inn í holukeppnina. Í þeirri keppni eru leiknar tvær umferðir á dag þar til að úrslitin ráðast í úrslitaleik um sigurinn.

Sigurvegarinn á Opna breska áhugamannamótinu í karlaflokki fær m.a. boð um að taka þátt á atvinnumótum á borð við Opna breska meistaramótið og Masters mótinu og er því til mikils að vinna fyrir okkar mann. Í kvennaflokki fær sigurvegari einnig boð um að taka þátt á risamótum á borð við AIG meistaramótið, Opna bandaríska meistaramótið, Evian meistaramótið og Augusta National áhugamannamótið.

Dagbjartur á meðal 120 keppenda á Royal Birkdale en 100 keppendur eru í kvennaflokki á West Lancashire.

Karlaflokkur – staða, úrslit og rástímar
Kvennaflokkur – staða, úrslit og rástímar

Við óskum þeim Dagbjarti og Huldu alls hins besta á vellinum næstu daga!

Golfklúbbur Reykjavíkur

 

 

Til baka í yfirlit