Dómarahornið: skemmd kylfa

Dómarahornið: skemmd kylfa

Í Meistaramóti GR 2019, kom upp skemmtilegt atvik sem vert er að ræða um hér í Dómarahorninu.

Atburðarás er:  leikmaður kemur til leikmanna (hlaupandi frá annarri holu) og spurði hvort þeir væru með kylfuskrúflykil (sexkant tæki til að herða sköft á kylfuhausum) þar sem hausinn á drævernum hans hefði losnað.  Enginn var með rétta verkfærið en spurningar sem vakna: má maður laga kylfuna sína, og má maður breyta drævernum á miðjum hring.

Þetta eru mjög góðar spurningar þar sem mjög margir dræverar í dag eru með allskonar skrúfum og hægt að breyta á marga vegu og þar sem er skrúfa þá getur hún einnig losnað án þess að maður vilji breyta einhverju.

Það eru mjög skýr regla um þetta mál sem er regla 4.1a

Stutta svarið er:

 1. Það má alls ekki breyta kylfu á með umferð er leikin, umferð hefst eftir að leikmaður hefur tekið sitt fyrsta högg af teig.
 2. Það má EKKI laga kylfu sem er biluð/skemmd áður en umferð hefst.
 3. Það MÁ laga kylfu sem skemmist eftir að umferð hefst.
 4. Leikmaður má ekki skipta um skemmda kylfu.

Regla 4.1a segir orðrétt, Kylfur sem eru leyfðar til að slá högg:

(2) Notkun eða viðgerð á kylfu sem skemmist á meðan umferð er leikin. Ef leyfileg kylfa skemmist á meðan umferð er leikin, eða á meðan leikur er stöðvaður samkvæmt reglu 5.7a, má leikmaðurinn að öllu jöfnu ekki skipta um kylfuna. (Sjá reglu 4.1b(3) varðandi takmarkaða undantekningu þegar leikmaðurinn olli ekki skemmdunum). Þó er litið svo á að skemmda kylfan sé leyfileg það sem eftir er umferðarinnar, óháð eðli eða ástæðu skemmdanna (en þetta á ekki við í umspili í höggleik, sem er ný umferð).

Það sem eftir er umferðarinnar má leikmaðurinn:

 • Halda áfram að slá högg með skemmdu kylfunni, eða
 • Láta gera við kylfuna með því að koma henni, að því marki sem hægt er, í það ástand sem hún var í áður en hún skemmdist við leik umferðarinnar eða við stöðvun leiks, með upphaflegu gripi, skafti og kylfuhaus. Þó má leikmaðurinn ekki:
  • Tefja leik um of (sjá reglu 5.6a), eða
  • Láta gera við neinar skemmdir sem voru á kylfunni áður en umferðin hófst.

„Skemmd á meðan umferð er leikin“ þýðir að leikeiginleikar kylfu hafi breyst vegna einhverrar athafnar á meðan umferðin var leikin (þar á meðal á meðan leikur var stöðvaður samkvæmt reglu 5.7a), hvort sem er:

 • Af leikmanninum ( svo sem við að slá högg eða við æfingasveiflu með kylfunni, við að setja kylfuna í golfpoka eða taka hana úr golfpoka, missa hana, styðja sig við hana eða kasta henni eða misbjóða), eða
 • Af einhverjum öðrum einstaklingi, vegna utanaðkomandi áhrifa eða náttúruaflanna.

Þó hefur kylfa ekki „skemmst á meðan umferð er leikin“ ef leikeiginleikum hennar er vísvitandi breytt af leikmanninum á meðan umferðin er leikin, eins og fjallað er um í reglu 4.1a(3).

(3) Vísvitandi breyting á leikeiginleikum kylfu á meðan umferð er leikin. Leikmaður má ekki slá högg með kylfu ef hann hefur vísvitandi breytt leikeiginleikum hennar á meðan umferðin er leikin (þar á meðal á meðan leikur var stöðvaður samkvæmt reglu 5.7a):

 • Með því að nota stillingar eða breyta kylfunni með áþreifanlegum hætti (nema þegar leyft er að lagfæra skemmdir samkvæmt reglu 4.1a(2)), eða
 • Með því að bera eitthvað efni á kylfuhausinn (að undanskildu því að hreinsa hann) til að hafa áhrif á virkni kylfuhaussins þegar högg er slegið.

Undantekning - Stillanlegri kylfu breytt í upphaflega stillingu: Ef leikeiginleikum kylfu var breytt með stillingu og kylfunni er svo breytt í

upphaflega stillingu, að því marki sem hægt er, áður en högg er slegið með henni er það vítalaust og nota má kylfuna til að slá högg.

Víti fyrir að slá högg í andstöðu við reglu 4.1a: Frávísun.

 • Það er vítalaust samkvæmt þessari reglu að bera (án þess að slá högg með) óleyfilega kylfu eða kylfu þar sem leikeiginleikum hefur vísvitandi verið breytt á meðan umferðin er leikin.
 • Þó er slík kylfa talin með, með tilliti til 14 kylfu hámarksfjöldans í reglu 4.1b(1).
Til baka í yfirlit