Dómarar GR hafa verið oft spurðir af því síðusta daga hvort vindhögg á teig séu hætt að telja. Það er stór og mikill misskilningur, vindhögg telja hvar sem er á vellinum.
Líklegast er misskilningur í þessari frétt frá GSÍ - Slóstu vindhögg á teignum?
Þar er sagt: ef boltinn er enn á teignum þá máttu færa boltann innan teigsins og tía hann upp annarsstaðar, eða færa tíið til. Í eldri reglum þá mátti alls ekki færa boltann eftir að vindhögg var slegið á teig. Þannig að breytingin á reglunum er sú að á meðan boltinn er á teignum máttu færa hann til.
Skilgreining á orðinu „Högg“, segir orðrétt:
Hreyfing kylfunnar fram á við til þess að hitta boltann.
Þó hefur högg ekki verið slegið ef leikmaðurinn:
- Ákveður í framsveiflunni að hitta ekki boltann og nær að koma í veg fyrir það með því að stöðva kylfuhausinn vísvitandi áður en hann nær að boltanum, eða, nái leikmaðurinn ekki að stöðva kylfuhausinn, með því að sveigja kylfuhausinn vísvitandi frá boltanum.
- Hittir boltann af slysni í æfingasveiflu eða við undirbúning fyrir höggið.
Regla 6.2b (6) segir orðrétt:
Þegar bolti í leik liggur á teignum. Ef bolti leikmannsins er í leik og liggur á teignum eftir högg (t.d. tíaður bolti eftir vindhögg) eða eftir að leikmaðurinn tók lausn, má hann:
- Lyfta eða hreyfa boltann vítalaust (sjá undantekningu 1 við reglu 9.4b), og
- Leika boltanum eða öðrum bolta hvaðan sem er af teignum, af tíi eða jörðinni samkvæmt (2), þar á meðal má hann leika boltanum þar sem hann liggur.
Þetta merkir að á meðan boltinn liggur á teignum (innan teigmerkjanna), þá má tía boltann upp aftur, þó búið sé að taka vindhögg og þú boltinn fljúgi einhverja metra fari í stein og komi til baka, þ.e. á meðan hann liggur á skilgreindum teig.
Skilgreiningin á Teig er orðrétt:
Svæðið þaðan sem leikmaðurinn verður að leika til að hefja leik á holunni sem hann er að leika.
Teigurinn er ferhyrnt svæði sem er tveggja kylfulengda djúpt og:
- Að framan afmarkast svæðið af línunni á milli fremstu brúna tveggja teigmerkja, eins og þau eru staðsett af nefndinni.
- Til hliðanna afmarkast svæðið af línum aftur frá ystu brúnum teigmerkjanna.
Teigurinn er eitt fimm skilgreindra svæða vallarins.
Öll önnur teigstæði á vellinum (hvort sem er á sömu holu eða á öðrum holum) eru hluti almenna svæðisins.