Dómarar gera líka mistök

Dómarar gera líka mistök

Það er nú þannig í golfi og með dómara að þeir geta gert mistök eins og annað fólk.  Skv. reglu 20.2a verða leikmenn að fylgja eftir úrskurði dómara og standa því úrskurðir dómara þó rangir séu.

Í Meistaramóti GR 2019, gerði yfirdómari GR mistök við einn úrskurð og langar að fjalla um hann hér svo leikmenn geti lært af því, allar neikvæðar athugasemdir afþakkaðar.

Málavextir eru:
Spilað er í 1. flokki á lokadegi í Meistaramóti GR 2019 í höggleik, á Korpunni, hola 16, leikmaður slær af teig og boltinn leitar til vinstri og flýgur inní rauða svæðið um 180m frá teig, leikmenn leita í smá stund (innan við 3 mínútur) inní rauða en sjá fljótt að það finnst ekkert þar, leikmaðurinn tekur því víti skv. rauðu vítasvæði og lætur nýjan bolta falla skv. því, og undirbýr sig til að slá sitt 3ja högg.  Áður en hann slær höggið og áður en 3 mínútur eru liðnað labbar annar kylfingur aðeins lengra og finnur þá bolta sem reynist vera bolti þess leikmanns sem taldi að boltinn sinn hefði farið inní rautt.  Boltinn hafði því farið í tré og skoppað til baka inná brautina.  Þarna reyndi aðeins á reglurnar, leikmaðurinn búinn að taka víti skv. rauðu vítasvæði en ekki búinn að slá hann, en finnur svo upphaflega boltann sinn innan 3ja mínútna.

Leikmenn hringdu í yfirdómara sem að óhugsuðu máli úrskurðaði í málinu að upprunaboltinn væri enn í leik og því ætti að spila honum, og hinn því úr leik, leikmaðurinn spilaði honum því vítislaust.

Þetta er því miður rangur úrskurður hjá yfirdómara, vegna þess að skv. reglu 17.1c, að eftir að nýr bolti er settur í leik með víti skv. vítasvæði þá er hann kominn í leik og upprunaboltinn úr leik þrátt fyrir að finnast utan vítasvæðis innan 3ja mínútna.

Regla 17.1c segir orðrétt Lausn vegna bolta sem hefur ekki fundist, en er innan vítasvæðis:

Ef bolti leikmanns finnst ekki og það er vitað eða nánast öruggt að boltinn hefur stöðvast innan vítasvæðis:

  • Má leikmaðurinn taka lausn gegn víti samkvæmt reglu 17.1d eða 17.2.
  • Þegar leikmaðurinn hefur sett annan bolta í leik til að taka lausn á þennan hátt:
    • Er upphaflegi boltinn ekki lengur í leik og ekki má leika honum.
    • Þetta gildir jafnvel þótt boltinn finnist svo á vellinum innan þriggja mínútna leitartímans (sjá reglu 6.3b).

Hins vegar, ef hvorki er vitað né nánast öruggt að boltinn hafi stöðvast innan vítasvæðis og boltinn er týndur verður leikmaðurinn að taka fjarlægðarlausn samkvæmt reglu 18.2.

Til baka í yfirlit