Dómari fer yfir reglu 9.3 sem tekur á náttúruöflum

Dómari fer yfir reglu 9.3 sem tekur á náttúruöflum

Kæru GR-ingar,

Yfirdómari fékk skemmtilegar spurningar varðandi jarðskjálfta og hvernig þeir tengjast golfreglunum.

Spurningar eins og t.d.

  • Stöðvist bolti á holubrún og það kemur jarðskjálfti og boltinn dettur í holuna.
  • Bolti stöðvast nálægt vallarmörkum og við jarðskjálfta rúllar boltinn útaf.
  • Það kemur jarðskjálfti í miðri sveiflu og leikmaður tekur vindhögg.

Það er regla 9.3 sem tekur á náttúruöflum, skilgreiningin á náttúruöflum er orðrétt:

„Áhrif náttúrunnar, svo sem vindur, vatn eða þegar eitthvað gerist án sýnilegrar ástæðu vegna áhrifa þyngdarafls“

Það er því ljóst að jarðskjálftar falla undir reglu 9.3, því ber að meðhöndla jarðskjálfta eins og t.d. vind.

Orðrétt segir regla 9.3:
Ef náttúruöflin (svo sem vindur eða vatn) valda því að kyrrstæður bolti leikmannsins hreyfist:

  • Er það vítalaust, og
  • Leika verður boltanum frá nýja staðnum.

Það merkir:

  • Ef bolti dettur í holu þá er hann í holu.
  • Ef bolti rúllar útaf, þá er leikmaður óheppinn og boltinn er þá útaf og taka víti samkvæmt því.
  • Ef bolti var útaf, en rúllar inná þá er leikmaðurinn heppinn og leik má á nýja staðnum.
  • Ef leikmaður er í miðri sveiflu og það kemur jarðskjálfti og hann slær óvart lélegt högg eða vindhögg, þá telur höggið, eins og t.d. ef það kæmi vindhviða.

Ef bolti sem er á hreyfingu er af slysni sveigður af leið af utankomandi áhrifum, eins og t.d. jarðskjálfta, þá er það vítalaust og leika verður boltanum þar sem hann stöðvast, samkvæmt reglu 11.1.

Undantekning á flöt, samkvæmt reglu 13.1d:
Ef búið er að merkja bolta, lyfta honum upp og leggja hann aftur og hann hreyfist eftir það vegna náttúruafla, þá á að leggja boltann aftur á sinn upprunalega stað, vítalaust.

Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað: Almennt víti (2 högg í höggleik, eða holutapi i holukeppni)

Vonandi verður hægt að spila golf í sumar vegna Covid og eldgoss, og vonandi munu jarðskjálftar ekki hafa mikil áhrif á höggin okkar.

Með bestu kveðju,

Yfirdómarinn
domari@grgolf.is

Til baka í yfirlit