Nú er að hlýna á höfuðborgarsvæðinu og golfsumarið að taka betur við sér. Það er því tímabært að huga að liðakeppninni okkar.
Nú er komið að skráningu í Eimskipsbikarnum.
Liðakeppni er keppni á milli golfhópa og var áður um útsláttarkeppni að ræða. Í ár verður sú breyting á fyrirkomulaginu að keppt verður í fjögurra liða riðlum þar sem öll liðin í riðlinum keppa innbyrðis. Liðin leika því þrjá leiki áður en kemur að útsláttarkeppninni. Það verða 1-2 lið sem komast áfram úr riðlunum, en það fer eftir heildarfjölda liða í keppninni.
Keppnin er fyrir alla klúbbmeðlimi 19 ára og eldri, þannig að karlahópar, kvennahópar eða blönduð lið eru gjaldgeng. Leikið er með fullri forgjöf í liðakeppninni. Þátttökugjald er 8.000 krónur á hvert lið.
Vegleg verðlaun verða í boði Eimskips og munu liðsmenn í tveimur efstu sætum verða verðlaunaðir. Sigurliðið verður handhafi Eimskipsbikarsins og hlýtur nafnbótina Bikarmeistarar GR.
Í þessari keppni eru allir leikirnir leiknir á Korpúlfstaðarvelli og koma liðin sér saman um leikdag innan auglýstra tímamarka. Leiknar eru 9 holur í hverri viðureign.
Skráning tilkynnist á netfangið lidakeppni@grgolf.is.
Skrá þarf liðsstjóra og gefa upp símanúmer og netfang hjá viðkomandi.
Einnig þarf að fylgja með listi yfir leikmenn liðsins, að lágmarki 6 leikmenn og mest 10 leikmenn.
Lið sem komast áfram úr riðlakeppninni verða að tilkynna a.m.k. 8 leikmenn áður en útsláttarkeppni hefst.
Skráningarfrestur er ein vika eða til miðvikudags 27. júní.