Eimskipsbikarinn – liðakeppni GR, framhald á komandi sumri

Eimskipsbikarinn – liðakeppni GR, framhald á komandi sumri

Sumarið 2016 fór Golfklúbbur Reykjavíkur af stað með nýjung í mótahaldi, liðakeppni GR, við góðar undirtektir. Fyrsta sumarið voru 13 lið með í keppninni og á síðasta ári voru þau 16 talsins. Keppnin hefur mælst vel fyrir af félagsmönnum og verður því að sjálfsögðu haldið áfram á komandi sumri.

Eimskipafélag Íslands gerðist styrktaraðili keppninnar og hlaut hún nafnið Eimskipsbikarinn – liðakeppni GR. Eimskip verður áframhaldandi styrktaraðili í ár.

Liðakeppnin er keppni á milli golfhópa og var áður um útsláttarkeppni að ræða. Í ár verður sú breyting á fyrirkomulaginu að keppt verður í fjögurra liða riðlum þar sem öll liðin í riðlinum keppa innbyrðis. Liðin leika því þrjá leiki áður en kemur að útsláttarkeppninni. Það verða 1-2 lið sem komast áfram úr riðlunum, en það fer eftir heildarfjölda liða í keppninni.

Keppnin er fyrir alla klúbbmeðlimi 19 ára og eldri, þannig að karlahópar, kvennahópar eða blönduð lið eru gjaldgeng. Leikið er með fullri forgjöf í liðakeppninni.

Vegleg verðlaun verða í boði Eimskips og munu liðsmenn í tveimur efstu sætum verða verðlaunaðir. Sigurliðið verður handhafi Eimskipsbikarsins og hlýtur nafnbótina Bikarmeistarar GR.

Í þessari keppni eru allir leikirnir leiknir á Korpúlfstaðarvelli og koma liðin sér saman um leikdag innan auglýstra tímamarka. Leiknar eru 9 holur í hverri viðureign.

Í úrslitaleik keppninnar voru leikirnir stærri og keppendur fleiri. Hver viðureign í úrslitaleiknum er 18 holur, átta leikmenn leika fyrir hvort lið í úrslitaleik.

Skráning og nánara fyrirkomulag verður auglýst fljótlega eftir opnun valla.

Golfklúbbur Reykjavíkur í samstarfi við Eimskip

Til baka í yfirlit