Ellert Þórarinsson ráðinn sem yfirvallarstjóri GR

Ellert Þórarinsson ráðinn sem yfirvallarstjóri GR

Ellert Þórarinsson hefur verið ráðinn sem yfirvallarstjóri Golfklúbbs Reykjavíkur og mun hefja störf um áramót. Ellert býr yfir mikilli menntun og reynslu í golfvallarfræðum og hefur unnið sem vallar- og verkefnastjóri hjá Golfklúbbi Brautarholts frá árinu 2009.

Ellert hóf störf sem sumarstarfsmaður hjá Golflklúbbi Akureyrar árið 1987 og tók í framhaldi ákvörðun um að mennta sig í golfvallarfræðum. Árið 1995 hóf hann nám í „Greenkeeping“ við Elmwood College í Skotlandi og útskrifaðist þaðan árið 1997. Ellert hefur sótt fjölda námskeiða í endurmenntun, t.d. við Landbúnaðarháskólann og hjá Vinnueftirlitinu. Undanfarin þrjú ár hefur hann setið í undanfaranefnd GSÍ og hefur tvisvar verið valinn vallarstjóri ársins, árin 2016 og 2018.  Samhliða þessu hefur Ellert einnig setið í stjórn SÍGÍ frá árinu 2017. 

Starfsferill:
Að námi loknu í Skotlandi hóf Ellert störf fyrir Golfklúbbinn Hamar á Dalvík og flutti því næst suður þar sem hann vann sem aðstoðarvallarstjóri hjá Golfklúbbnum Keili á árunum 1998-1999. Leiðin lá aftur norður þar sem hann vann sem aðstoðarvallarstjóri og svo vallarstjóri hjá Golfklúbbi Akureyrar. Árið 2002 fékk Ellert tækifæri á að taka við starfi vallarstjóra hjá Skjeberg Golfklubb í Östfold, Noregi, þar starfaði hann í fimm ár og sótti mikla reynslu af því að starfa í blómlegu umhverfi golf og íþróttasvæða. Leiðin lá aftur heim til Íslands árið 2007 og við tók starf aðstoðarvallarstjóra hjá Golfklúbbnum Oddi þar til hann tók við starfi vallar- og verkefnastjóra hjá Brautarholti veturinn 2009.

Með ráðningunni er klúbburinn að leggja metnað sinn í það að gera góða velli ennþá betri fyrir komandi ár, við bjóðum Ellert velkominn til starfa. 

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit