Evrópumótaröðin: 2. stig úrtökumótsins leikið um helgina - fimm íslenskir kylfingar taka þátt, þar af þrír úr Golfklúbbi Reykjavíkur

Evrópumótaröðin: 2. stig úrtökumótsins leikið um helgina - fimm íslenskir kylfingar taka þátt, þar af þrír úr Golfklúbbi Reykjavíkur

Fimm íslenskir kylfingar taka þátt á 2. stigi úrtökumóts fyrir Evrópumótaröð karla 2019. Af þeim eru  þrír úr röðum Golfklúbbs Reykjavíkur – Andri Þór Björnsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús auk þeirra eru það Bjarki Pétursson úr Golfklúbbi Kiðjabergs og Rúnar Arnórsson úr Golfklúbbnum Keili. Aldrei áður hafa jafnmargir íslenskir kylfingar komist inn á 2. stig en alls reyndu 11 íslenskir kylfingar við 1. stigið í ár.

Keppni á úrtökumótinu fer fram dagana 7. -11. nóvember á Spáni og verður leikið á fjórum völlum samtímis. Um 75 keppendur eru á hverjum velli og komast um 20 efstu áfram á lokaúrtökumótið sem fer fram dagana 15.-20. nóvember á Lumine golfvellinum í Tarragona skammt frá Barcelona.

Andri Þór Björnsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Rúnar Arnórsson leika allir á Desert Springs vellinum. Andri Þór og Rúnar komust áfram á 2. stigið eftir flottan árangur í Þýskalandi á fyrsta stiginu en Guðmundur komst beint inn á 2. stigið eftir frábæra spilamennsku á Nordic Golf mótaröðinni þar sem hann stóð þrisvar uppi sem sigurvegari.

Desert springs – skor og staða keppenda

  

Haraldur Franklín Magnús leikur á Alenda golfsvæðinu í Alicante en hann komst áfram úr 1. stigs úrtökumóti í Austurríki. Þetta er í fjórða skiptið sem Haraldur kemst á 2. stig úrtökumótsins og verður spennandi að sjá hvort honum takist að spila sig upp í lokaúrtökumótið eftir keppni helgarinnar. 

Alenda – skor og staða keppenda


Bjarki Pétursson er að taka þátt í fyrsta sinn á úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina en hann mun leika á Club de Bonmont, Tarragona um helgina. Bjarki tryggði sér keppnisrétt á Nordic Tour atvinnumótaröðinni og komst í gegnum 1. stigið á Evrópumótaröðinni í fyrstu tilraun.

Club de Bonmont, Tarragona – skor og staða keppenda

Við hlökkum til að fylgjast með þessum glæsilegu kylfingum og óskum þeim alls hins besta á vellinum um helgina!

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit