Evrópumótaröðin: Lokúrtökumót hefst á föstudag – Andri Þór, Guðmundur Ágúst og Bjarki meðal keppenda

Evrópumótaröðin: Lokúrtökumót hefst á föstudag – Andri Þór, Guðmundur Ágúst og Bjarki meðal keppenda

Ljóst varð nú fyrr í vikunni að þeir Andri Þór Björnsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Bjarki Pétursson hefðu unnið sér inn keppnisrétt á lokaúrtökumóti Evrópuraðar karla. Mótið fer fram á Lumine golfsvæðinu í Tarragona skammt frá Barcelona dagana 15. – 20. nóvember og eru keppnisvellirnir tveir, Lakes og Hill.

Keppendahópurinn á lokaúrtökumóti er sterkur, alls 156 manns en ásamt þeim sem unnu sér þátttökurétt í gegnum 2. stig úrtökumótanna bætast við kylfingar sem enduðu neðarlega á Evrópumótaröðinni í ár. Sex hringir eru leiknir og er niðurskurður að fjórum hringjum loknum þar sem 70 keppendur komast áfram. Til að öðlast fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni þurfa kylfingar að enda í einu af 25 efstu sætunum að sex hringjum loknum.

Þeir keppendur sem komast í gegnum niðurskurð í mótinu en enda neðar en í 25. sæti fá keppnisrétt á einhverjum mótum Áskorendamótamótaraðarinnar sem er næst sterkasta mótaröð í Evrópu. 

Skor og stöðu keppenda er hægt að fylgjast með hér

Við óskum okkar mönnum alls hins besta á vellinum og hlökkum til að fylgjast með keppni næstu daga.

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit