Félagsmenn GR njóta vinavallasamnings á Silfurnesvelli í sumar

Félagsmenn GR njóta vinavallasamnings á Silfurnesvelli í sumar

Félagsmenn GR geta nýtt sér vinavallasamninga á Austurlandi í sumar en í síðustu viku var Hagavöllur hjá Golfklúbbi Seyðisfjarðar kynntur til sögunnar. Sjötti vinavöllurinn er einnig á Austurlandi en það er Silfurnesvöllur hjá Golfklúbbi Hornafjarðar.

Golfklúbbur Hornafjarðar var stofnaður þann 16.október 1971 og var stofnfundur haldinn á Hótel Höfn. Silfurnesvöllur er í landi Hafnarhrepps á ræktuðum löndum, meðal annars á Silfurnesi, sem nafnið er dregið af. Lega vallarins er sérlega heillandi og býður upp á mikla möguleika til fjölbreytts golfleiks. Í fyrstu var völlurinn 6 holur en var fljótlega breytt í 9 holu völl, með velvilja Hafnahrepps og þeirra sem þarna áttu lönd. Nýr og breyttur völlur Golfklúbbs Hornafjarðar var formlega vígður þann 17. ágúst 2006.

Árið 1981 hóf klúbburinn byggingu á 150 m2 golfskála og var það Árni Kjartansson arkitekt sem teiknaði skálann. Árið 2016 var byggð við golfskálann ný 85 fermetra vélageymsla sem gjörbreytir allri umhirðu og umgengni við tæki og tól klúbbsins.

Vallargjald er kr. 4.000 á Silfurnesvelli en félagsmenn GR greiða kr. 3.000 í hvert sinn sem þeir leika á vellinum og skiptir þá ekki máli hvort leiknar séu 9 eða 18 holur. Áður en leikur hefst skal framvísa félagsskírteini og greiða vallargjald í afgreiðslu Golfklúbbs Hornafjarðar. Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum, sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti af vallargjöldum, eins og t.d. fyrirtækjamót.

Allar upplýsingar um vinavelli félagsins er að finna á undirsíðunni Vinavellir

Við vonum að félagsmenn nýti sér þessa nýju kosti í hópi vinavalla á komandi sumri. 

Góða helgi!

Til baka í yfirlit