Fjölgun í dómarahóp GR

Fjölgun í dómarahóp GR

Kæru félagsmenn Golfklúbbs Reykjavíkur,

Gaman er að segja frá því að meðlimir GR tóku vel í auglýst Héraðsdómaranámskeið sem haldið var af GSÍ.  Það voru 54 sem skráðu sig á námskeiðið hjá GSÍ, þar af voru 26 frá GR, sem er rétt um 50%, það voru 33 sem kláruðu prófið og þar af voru 16 frá GR, sem er aftur um 50%, sérstaklega er ánægjulegt að segja frá því af þeim 16 meðlimum GR sem kláruðu prófið með stæl eru 6 konur og því verður einstaklega gaman að sjá konur dæma fyrir okkur á næstu árum.

Þeir sem kláruðu prófið hafa fengið póst frá yfirdómara GR og boðið að taka þátt í dómarastörfum, nú þegar eru 12 búnir að melda sig inní hópinn og munu þau fá þjálfun hjá reyndum dómurum GR áður en þau spreyta sig svo sjálf í því að dæma á mótum innan GR.

Dómarastigin eru 3, fyrst er það Héraðsdómaraprófið, þeir sem ná því hafa heimild til að dæma í innanfélags- og opnum mótum innan síns klúbbs.  Eftir það þurfa dómara að vera virkir í 3 ár áður en þeir geta farið í Landsdómarann, þá hafa dómarar réttindi til að dæma í öllum GSÍ mótum nema Íslandsmótinu í höggleik og í holukeppni.  Þegar dómarar eru komnir með góða reynslu og hafa verið virkir sem Landsdómarar hafa þeir tök á að sækja um námskeið og próf sem Alþjóðadómari, það námskeið er haldið af R&A og fer það fram í Skotlandi við St. Andrews.  Eftir það hafa menn réttindi til að dæma á öllum mótum sem haldin eru af GSÍ, einnig hafa reynslumestu íslensku dómararnir dæmt erlendis, meðal annars á The Open (British open) í Bretlandi.

Ásamt þessum góða fjölda af Héraðsdómurum hjá GR, þá var einnig einn reynslumikill dómari GR sem þreytti Landsdómarapróf í vor og stóðst það með glans og því búið að fjölga í þeim hópi okkar.

Hjá GR eru núna 4 Landsdómarar og samtals um 15 virkir dómarar og fjölgar hratt, ánægjulegt er að starfa með svo góðum og fjölbreyttum og stækkandi hópi.

Með kveðju,
Yfirdómari GR
domari@grgolf.is

Til baka í yfirlit