Fréttabréf frá stjórn – opnun vallanna og fleira

Fréttabréf frá stjórn – opnun vallanna og fleira

Golfsumarið er hafið. Golfvellir í nágrenni höfuðborgarinnar, sem eru jafnan fyrstir til á vorin, hafa opnað og nú fer að styttast í opnun valla GR.

Korpúlfsstaðavöllur, allar lykkjur, verða opnaðar formlega laugardaginn 7. maí með opnunarmóti eins og hefð er fyrir. Fyrirhuguð opnun Grafarholtsvallar er laugardaginn 14. maí sem einnig fer fram með opnunarmóti. Veturinn var óvenju harður en vellirnir virðast koma vel undan vetri. Þeir hafa þó verið óvenju blautir og því treystum við okkur ekki til að opna þá fyrr.

Í fréttabréfi fyrir skömmu síðan gerði stjórn grein fyrir breytingum á fyrirkomulagi á skráningu rástíma - sjá hér. Við hvetjum félagsmenn til að kynna sér breytingarnar. Því til samræmis, og í ljósi reynslu, hafa verið settar nýjar rástímareglur sem eru aðgengilegar hér á vefnum - sjá hér sem við hvetjum félagsmenn einnig til að kynna sér. Rástímareglur hafa verið hertar til muna og það verður ekki tekin sem gild afsökun hafi viðkomandi ekki kynnt sér þær.

Hvað hefur verið gert frá því í fyrra?
Gerð hefur verið grein fyrir helstu framkvæmdum og áformuðum framkvæmdum í fréttabréfum nú undanfarið.  Eftirfarandi upptalning er til viðbótar:

 • Neðri hæð Grafarholtsskála: Hún var öll tekin í gegn af sjálfboðaliðum í klúbbnum, allt hreinsað, rými máluð og gerð snyrtileg. Þar er nú fyrir hendi boðleg búningsaðstaða karla og kvenna. Stjórnin þakkar þeim sem komu að þessu fyrir frábært framtak.
 • Grafarkotsvöllur: Allir teigar á Grafarkotsvelli verða endurnýjaðir með góðu gervigrasi. Beðið er eftir afhendingu, en afhendingartími á svona aðföngum er seinni en venjulega vegna heimsfaraldursins. Nýjar brautarmerkingar verða einnig settar upp við hvern teig.  
 • Thorsvöllur: Thorsvelli verður gert hærra undir höfði en áður á allan hátt og umhirða hans verður eftir sömu verkferlum og á öðrum völlum félagsins. Völlurinn er mun betri en margir félagsmenn gera sér grein fyrir og verður betrumbættur enn frekar. Félagsmenn eru hvattir til að spila Thorsvöll eins og að aðra velli GR. Nýjar brautarmerkingar verða settar upp , ásamt ruslatunnum og boltahreinsum.  
 • Bráðabirgðateigar: GR hefur komið sér upp bráðabirgðateigum með góðu gervigrasi á undirstöðum sem hægt verður að nýta á teigum sem eru í uppbyggingu  Þessir teigar verða notaðir meðan framkvæmdir standa yfir og truflun við leik þannig lágmörkuð.
 • Upphitunaraðstaða á Korpúlfsstöðum: Gerð hefur verið upphitunaraðstaða utandyra á Korpúlfsstöðum með gervigrasi og neti til að slá í.  Upphitunaraðstaðan verður staðsett aftan við eftirlitshús. Þessi aðstaða er eingöngu ætluð til upphitunar og kylfingar hvattir til að sýna hver öðrum tillitsemi og skipta henni með sér, ef svo ber undir. Vonir eru bundnar við að aðstaðan verði tilbúin fyrir opnunarmót.
 • Ruslatunnur: Eitt helsta umkvörtunarefni, samkvæmt viðhorfskönnun meðal félagsmanna, var skortur á ruslatunnum á golfvöllunum. Úr þessu hefur verið bætt með kaupum á nýjum ruslatunnum.  Ruslatunnur með flokkunarstöðvum verða við klúbbhús og við 10. teig í Grafarholti. Flokkunartunnur  verða settar upp á u.þ.b. öðrum hverjum teig á völlunum. Beðið er eftir afhendingu á tunnunum, en afleiðingar heimsfaraldurs hafa einnig áhrif hér.
 • Vallareftirlit: Eftirlit á völlunum verður aukið. Eftirlit verður með mætingu og leikhraða úti á velli. Dragist holl aftur úr hollinu á undan hefur eftirlitsmaður heimild til að leggja fyrir viðkomandi að færa sig á fremri teiga og eftir atvikum gera aðrar ráðstafanir til að halda eðlilegum leikhraða. Viðmiðunartími fyrir 18 holu leik er fjórar klukkustundir.  Eftirlitsmenn gegna einnig hlutverki í því að halda völlunum snyrtilegum, með tæmingu ruslafata svo dæmi sé nefnt. Starfslýsingar erftirlitsmanna hafa verið uppfærðar þannig að þær nái yfir þessa þætti. Samhliða hefur verið fjárfest í tveimur nýjum eftirlitsbílum til að auka skilvirkni.
 • Snyrtimennska: Vellir GR hafa verið gagnrýndir fyrir skort á snyrtimennsku. Við viljum bæta snyrtimennsku og umgengni um vellina með öllum ráðum og höfum gripið til margvíslegra aðgerða í því skyni, sem við vonum að félagsmenn verði áskynja um í sumar.

Hvað getum við og þú gert til að bæta snyrtimennsku og umgengni?
Við í stjórn og starfsmenn kúbbsins erum að gera það sem við getum til að hafa vellina sem snyrtilegasta. Einn liðurinn í því er að höfða til félagsmanna því það erum við – kylfingarnir – sem göngum um völlinn. Kylfingur sem gengur vel um og sýnir öðrum tillitssemi er flottur kylfingur. Við hvetjum ykkur til að gæta sérstaklega að eftirfarandi:

 1. Gætum að leikhraða. Liður í því er að velja teigasett við hæfi. Í dag er ekkert sem heitir karla- eða kvennateigar. Öll teigasett hafa verið vallarmetin fyrir bæði kyn. Veljum teiga sem henta. Það gerir leikinn ánægjulegri og flýtir leik. Verum tilbúin þegar röðin kemur að okkur að slá og spilum “ready golf” þegar það er hægt. Svonefndar “covid-reglur” höfðu góð áhrif á leikhraða. Það flýtir fyrir að hafa stöngina í þegar við púttum og gefur jafngóða raun.
 1. Ruslafötur eru til að setja rusl í þær og við hendum rusli ekki annars staðar. Enn betra, og við höfðum til ykkar kylfinga með það, er að geyma rusl sem safnast meðan á hring stendur í golfpokanum og tæma að loknum hring. Í yfirgnæfandi meirihluta tilvika á þetta ekki að vera tiltökumál. Við gerum að öðru óbreyttu ráð fyrir að þurfa að tæma ruslafötur með klukkustundar millibili en ef við temjum okkur þetta háttalag verður unnt að spara tæmingarferðirnar og nýta tímann sem sparast í önnur verkefni eftirlitsmanna.
 1. Skiljum ekki eftir tíbrot á teigum. Tíbrot úti um allt á teigum og í kringum þá eru lýti eins og annað drasl. Einnig fara þau illa með sláttuvélarnar okkar. Okkur er engin vorkunn að tína upp eftir okkur tíin, einnig ef þau hafa brotnað, og setja í þar til gerða bakka.
 1. Setjum torfur í kylfuför. Við erum ekki á Florida! Opin sár á vellinum eru lýti og þau eru lengi að gróa á Íslandi. Því er afar mikilvægt að setja torfur í kylfuför og að við gerum það vandlega þannig að þær passi rétt í förin, ekki bara einhvern veginn.
 1. Rökum glompur. Eftir tíma “covid-reglna” er eins og margur kylfingurinn haldi að það þurfi ekki lengur að raka glompur. Það er misskilningur. Það ber að raka glompur eftir sig og það vandlega. Órökuð glompa er ósnyrtileg og ekki boðleg kylfingum sem á eftir koma. Þá spörum við vallarstarfsmönnum dýrmætan tíma ef þeir þurfa ekki að laga til eftir okkur, tíma sem þeir geta þá notað í önnur verkefni.
 1. Lögum boltaför í flötum. Bolti sem lendir á flöt skilur eftir sig far. Ef gert er við það innan fárra mínútna skilur það ekki eftir sig neina skemmd. Líði lengri tími myndast skemmdir og það tekur nokkrar vikur fyrir far, sem ekki er gert við, að jafna sig. Því ber okkur að leita uppi farið eftir okkar bolta. Ef ekkert far er að finna ættum við að finna annað far til að laga í staðinn, a.m.k. þar til þorri okkar kylfinga hefur tileinkað sér þetta vinnulag og engin för að finna. Flöt með boltaförum um allt er ósnyrtileg og engum um að kynna nema kylfingunum sjálfum.

Við biðjum ykkur GR-inga að taka tillit til þessara leiðbeininga og vera þannig flott á vellinum.  Með sameiginlegu átaki þar sem félagsmenn gera sitt og starfsmenn sitt verða vellirnir snyrtilegir sem aldrei fyrr – svo einfalt er það og við sættum okkur ekki við annað.

Kær kveðja og með von um ánægjulegt golfsumar
Stjórn GR

Til baka í yfirlit