Fyrirspurn til dómara - að setja niður tí í leiklínu

Fyrirspurn til dómara - að setja niður tí í leiklínu

Fleiri fyrirspurnir hafa borist yfirdómara klúbbsins, Aroni Haukssyni, og birtum við þær hér öðrum kylfingum til gagns. Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið domari@grgolf.is 

Fyrirspurn frá félagsmanni:

Leikmaður er kominn inná flötina og á erfitt með að lesa púttlínuna sína, hann labbar fyrir aftan holuna og finnur svo stað sem hann vill miða á og stingur niður tíi á flötina til að átta sig betur á línunni, og púttar svo meðan tíið er þar, en missir samt púttið.

Svar dómara:

Regla 10.2b (2) segir orðrétt:

Að benda á leiklínu vegna bolta sem er á flötinni. Áður en höggið er slegið mega aðeins leikmaðurinn og kylfuberi hans benda á leiklínu leikmannsins, þó með eftirfarandi takmörkunum:

Leikmaðurinn eða kylfuberinn mega snerta flötina með hönd, fæti eða einhverju sem þeir halda á, en mega ekki bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið, í andstöðu við reglu 8.1a, og

Leikmaðurinn eða kylfuberinn mega ekki leggja neinn hlut á flötina eða utan hennar til að sýna leiklínuna. Þetta er bannað, jafnvel þótt hluturinn sé fjarlægður áður en höggið er slegið. 

Reglu 10.2b (3) segir orðrétt:

Ekki má leggja niður hluti til aðstoðar við að taka stöðu. Leikmaður má ekki taka stöðu fyrir höggið með því að nota einhvern hlut sem var lagður niður af eða fyrir leikmanninn til að aðstoða við uppstillingu fóta eða líkama, svo sem kylfu sem er lögð á jörðina til að sýna leiklínuna.

Taki leikmaðurinn stöðu andstætt þessari reglu sleppur hann ekki við víti þótt hann stígi upp úr stöðunni og fjarlægi hlutinn.

Víti fyrir brot á reglu 10.2: Almennt víti (2 högg í höggleik og holutap í holukeppni)

Niðurstaðan er því sú, að við það að reka niður tí á flötina við að reyna að átta sig á leiklínunni, þá er það brot á reglu 10.2b og er því Almennt víti fyrir það.

Til baka í yfirlit