Fyrirspurn til dómara - hvernig þekki ég boltann?

Fyrirspurn til dómara - hvernig þekki ég boltann?

Ef félagsmenn hafa einhverjar spurningar varðandi leik og leikreglur á golfvellinum er hægt að senda fyrirspurn á yfirdómara klúbbsins, Aron Hauksson, í gegnum netfangið domari@grgolf.is - eftirfarandi fyrirspurn barst okkur og birtum við hana hér öðrum félagsmönnum og kylfingum til gagns.

Fyrirspurn:
Hvað má ég gera ef ég finn bolta en get ekki séð hvort þetta er minn bolti.

Svar dómara:
Skv. reglu 7.3 þarftu að merkja legu boltans og lyfta honum upp, mátt hreinsa eins mikið og þarf til að þekkja hann, og leggja þarf svo boltann aftur á nákvæmlega sama stað.  Með nýju reglunum þarftu ekki að tilkynna það öðrum leikmanni eða gefa öðrum leikmanni færi á að fylgjast með þér, þér er treyst fyrir því að gera þetta rétt.

Alltaf og þar á meðal ef boltinn lá í karga eða djúpt sokkinn í háu grasi, er mikilvægt að boltinn sé lagður aftur í sama farið.  Alls ekki má reyna að nýta þessa reglu til að fá betri legu á boltann, þar sem hann er oftast í erfiðum aðstæðum þegar erfitt er að þekkja hann.

Sé boltinn ekki lagður í sama farið, t.d. með því að stilla honum hærra upp í háu grasi, merkir það að slegið er af röngum stað og er það almenna vítið (2 högg í höggleik og holutap í holukeppni)

Dómari hvetur því alla kylfinga að merkja boltann sinn það vel að hann þekkist frá öllum sjónarhornum.

Hægt er að lesa sig um þetta inn á Golfreglur á golf.is 

Regla 7.3 er svo hljóðandi:

7.3 Að lyfta bolta til að þekkja hann

Ef bolti gæti verið bolti leikmanns, en ekki er hægt að þekkja boltann þar sem hann liggur:

  • Má leikmaðurinn lyfta boltanum til að þekkja hann (þar á meðal með því að snúa honum), en:
  • Fyrst verður að merkja staðsetningu boltans og ekki má hreinsa boltann meira en nauðsynlegt er til að þekkja hann (nema á flötinni) (sjá reglu 14.1).

Ef boltinn sem var lyft er bolti leikmannsins eða bolti annars leikmanns verður að leggja boltann aftur á upphaflega staðinn (sjá reglu 14.2).

Ef leikmaðurinn lyftir bolta sínum samkvæmt þessari reglu þegar slíkt er óþarft til að þekkja boltann (nema á flötinni þar sem leikmaðurinn má lyfta boltanum samkvæmt reglu 13.1b), merkir ekki staðsetningu boltans áður en honum er lyft eða hreinsar boltann þegar það má ekki, fær leikmaðurinn eitt vítahögg.

Víti fyrir að leika bolta sem ranglega hefur verið skipt um eða að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 7.3: Almennt víti samkvæmt reglu 6.3b eða 14.7a.

Til baka í yfirlit