Fyrirspurn til dómara vegna úrskurðar í Íslandsmóti

Fyrirspurn til dómara vegna úrskurðar í Íslandsmóti

Meðlimur GR sem var keppandi á Íslandsmótinu í golf sem fór fram hjá Golbklúbbi Mosfellsbæjar, hafði samband við yfirdómara GR og óskaði eftir úrskurði varðandi eitt mál.  Það skal tekið fram að þessi ósk barst eftir að mótinu lauk og því er ekki verið að sækjast eftir breytingum á úrslitum mótsins, aðeins að fá nánari skýringar á málinu.

Málavextir eru þeir að leikmaður A slær inná flöt og boltinn stöðvast nálægt holu, leikmaður B sem á eftir að vippa inná flötina biður leikmann A um að láta boltann sinn liggja þar sem hann gæti hjálpað leikmanni B við að stöðva sinn bolta nálægt holunni.

Úrskurður:
Auðvitað má leikmaður B vippa inná flöt á meðan bolti leikmanns A liggur þar, algjörlega vítislaust.

Hinsvegar ef leikmaður B óskar eftir því að leikmaður A láti boltann sinn liggja, og leikmaður A samþykkir það, og leikmaður B leikur sínum bolta, þá er það bannað og báðir aðilar fá almennt víti (2 högg víti)

Ef leikmaður A óskar eftir því fá að merkja boltinn sinn og taka hann upp áður en leikmaður B spilar sínum bolta, verður leikmaður B að hinkra, ef hann hinsvegar slær boltann sinn áður en leikmaður A fær tækifæri til að merkja og taka upp boltann hefur B bakað sér almennt víti.

Útskýringar og vísun í reglurnar:

Regla 15.3a segir orðrétt:

Eingöngu í höggleik gildir að:

  • Leikmaður sem þarf að lyfta bolta sínum má leika honum fyrst, í stað þess að lyfta honum.
  • Ef tveir eða fleiri leikmenn sammælast um að láta bolta liggja til að aðstoða einhvern leikmann og sá leikmaður slær síðan högg þegar boltinn sem aðstoðar liggur á fyrri stað fær hver leikmaður sem stóð að samkomulaginu almenna vítið (tvö vítahögg).

Í Opinberum leiðbeiningum sem eru inná golf.is þá segir orðrétt:

15.3a/1 – Víti fyrir að láta bolta sem aðstoðar liggja kyrran krefst ekki vitneskju

Samkvæmt reglu 15.3a gildir að ef tveir eða fleiri leikmenn í höggleik sammælast um að láta bolta liggja á flötinni til að aðstoða einhvern leikmann, og höggið er slegið með boltann á þeim stað, fær hver leikmaður sem stóð að samkomulaginu tvö högg í víti. Víti fyrir brot á reglu 15.3a fer ekki eftir því hvort leikmennirnir vissu að slíkt samkomulag er óheimilt.

Til dæmis, áður en leikmaður leikur bolta í höggleik rétt utan flatarinnar biður hann annan leikmann um að lyfta ekki bolta sínum sem er nærri holunni, svo fyrri leikmaðurinn geti notað hann til að stöðva sinn bolta. Hinn leikmaðurinn veit ekki að slíkt er bannað og samþykkir að láta sinn bolta kyrran við holuna til að aðstoða hinn leikmanninn. Um leið og högg er slegið með boltann kyrran við holuna fá báðir leikmennirnir víti samkvæmt reglu 15.3a.

Sama ætti við ef leikmaðurinn sem átti boltann nærri holunni byðist til að láta boltann sem er í leik liggja til að aðstoða hinn leikmanninn og hinn leikmaðurinn þægi það.

Ef leikmennirnir vita að þeir mega ekki sammælast um þetta, en gera það samt, fá þeir báðir frávísun samkvæmt reglu 1.3b(1) fyrir að sniðganga vísvitandi reglu 15.3a.

15.3a/2 – Leikmenn mega láta bolta sem aðstoðar liggja kyrran í holukeppni

Í holukeppni má leikmaður samþykkja að láta bolta sinn kyrran til að aðstoða mótherjann því hugsanlegur ávinningur af því skiptir einungis máli í þeim leik.

Til baka í yfirlit