Fyrsti vinavallasamningur sumarsins undirritaður

Fyrsti vinavallasamningur sumarsins undirritaður

Febrúar er lentur og fögnum við því þar sem biðin eftir íslenska golfsumrinu 2020 styttist. Vinna er hafin við að semja við vinavelli fyrir sumarið og vonumst við til að geta boðið upp á velli í öllum landshlutum þetta árið. Fyrsti samningurinn sem hefur verið undirritaður er við Svarfhólsvöll hjá Golfklúbbi Selfoss og er það fimmta árið í röð sem klúbbarnir gera með sér samstarf.

Svarfhólsvöllur er glæsilegur 9 holu völlur á besta stað á Selfossi. Golfklúbbur Selfoss hefur upp á allt að bjóða fyrir kylfinga áður en haldið er af stað á völlinn - glæsilegt klúbbhús, veitingaaðstöðu og æfingasvæði.

Sömu reglur gilda á Svarfhólsvelli eins og áður á vinavöllum, félagsmenn Golfklúbbs Reykjavíkur greiða kr. 2.000 í vallargjald í hvert sinn er þeir leika Svarfhóllsvöll og skiptir þá ekki máli hvort leiknar séu 9 eða 18 holur. Áður en leikur hefst skulu félagar framvísa félagsskírteini sínu og greiða vallargjald í afgreiðslu. Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum, sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti af vallargjöldum, eins og t.d fyrirtækjamót.

Þegar nær dregur vori verður kynnt frekar fyrir félagsmönnum hvernig bókun á vinavöllum fer fram í nýju tölvukerfi, Golfbox.

Við hlökkum til að kynna fleiri vinavelli fyrir félagsmönnum á komandi vikum!

Golfklúbbur Reykjavíkur

 

Til baka í yfirlit