Garðavöllur er níundi vinavöllur GR á komandi tímabili

Garðavöllur er níundi vinavöllur GR á komandi tímabili

Níundi vinavöllur GR fyrir komandi tímabil er félagsmönnum vel kunnugur en það er Garðarvöllur hjá Golfklúbbnum Leyni. Klúbbarnir hafa átt gott samstarf í gegnum tíðina og er þetta sextánda árið í röð sem félagsmenn njóta vinavallasamnings á Akranesi.

Tilfinningin sem kylfingar eiga að fá þegar mætt er á fyrsta teig á Garðavelli er að þeir séu velkomnir á völlinn, framundan er braut sem er ekki mjög erfið en býður þeim upp í dans sem það vilja. Völlurinn er án efa með betri keppnisvöllum landsins og hefur verið með vinsælli vinavöllum félagsmanna GR. Mikil uppbygging hefur átt sér stað hjá Golfklúbbnum Leyni og var glæsileg 1000 m2 frístundamiðstöð meðal annars tekin í notkun á síðasta ári.  

Sömu reglur gilda áfram þegar leikið er á Garðavelli, félagsmenn Golfklúbbs Reykjavíkur greiða kr. 2.600 í vallargjald í hvert sinn er þeir leika Garðavöll og skiptir þá ekki máli hvort leiknar séu 9 eða 18 holur. Áður en leikur hefst skal framvísa félagsskírteini og greiða vallargjald í afgreiðslu. Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum, sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti af vallargjöldum, eins og t.d fyrirtækjamót.

Allar upplýsingar um vinavelli félagsins er að finna á undirsíðunni Vinavellir

Með góðri kveðju og óskum um góða helgi! 
Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit