Golf- og æfingaferð til Montecastillo fyrir félagsmenn GR í haust

Golf- og æfingaferð til Montecastillo fyrir félagsmenn GR í haust

Golfklúbbur Reykjavíkur í samvinnu við Heimsferðir ætla að bjóða félagsmönnum klúbbsins upp á frábæra golf- og æfingaferð til Montecastillo á Spáni í haust. Boðið verður upp á golfskóla og aðra fræðslu tengda golfleiknum í ferðinni og verður sú kennsla í höndum PGA golfkennara klúbbsins – Inga Rúnars Gíslasonar, David George Barnwell og Snorra Páls Ólafssonar.  Áætluð brottför er 24. september og heimkoma þann 04. október, alls 10 dagar. Gist verður á 5 stjörnu hóteli, Barcelo Montecastillo Resort, sem stendur við golfvöllinn og er rétt utan við hinn fallega bæ Jerez de la Fontera í Andalusiu fylki á suður Spáni. Á hótelinu eru 208 vel búin herbergi sem hafa verið glæsilega endurhönnuð.

Montecastillo er frábær 18 holu golfvöllur með stórfenglegu útsýni og jafnframt fyrsti golfvöllurinn sem sem Jack Nicklaus hannaði í Evrópu. Völlurinn fór í gegnum miklar endurbætur árið 2013 og hefur skipað sig í hóp með þeim glæsilegustu í Evrópu, við völlinn er frábær aðstaða til æfinga - driving range þar sem slegið er af grasi, pútt og vippflatir auk þess sem þeir eru að opna eitt metnaðfyllsta stuttaspilssvæði Spánar nú í haust.

Golfkennsla
Golfkennsla mun fara fram annan hvern dag og verður hagað þannig að eftir spil á morgnana og hádegisverð taka við skipulagðar æfingar í golfskólanum. Æfingarnar fara fram við bestu aðstæður á Montecastillo þar sem tekið verður á öllum helstu þáttum leiksins. Stefnt er að markvissum og skemmtilegum æfingum og kennslu auk þess að boðið verður upp á ýmiskonar fjölbreytta fræðslu í fyrirlestrarformi þegar sólin er sest. Ingi, David og Snorri munu þar að auki spila með kylfingum á morgnana og gefa góð ráð á vellinum. 

Markmið kennara golfskólans  í lok ferðar er að þeir félagar GR sem sóttu ferðina hafi fengi ítarlega fræðslu um það hvernig best er að haga æfingum utan golfvallarins þegar heim er komið og sjái um leið framfarir í sínum leik á meðan ferðinni stendur og komi heim sem betri og ánægðari kylfingar.

Verð fyrir ferðina er kr. 274.990 – innifalið er:

  • 10 nátta gisting á Barcelo Montecastillo Resort
  • 10 dagar af ótakmörkuðu golfi
  • 10 dagar af golfbíl, 18 holur. NB ef kylfingur ákveður að leika meira en 18 holur per dag þá kostar bílinn aukalega einungis 10€ per sæti.
  • Gisting með allt innifalið: morgunverður / hádegisverður / kvöldverður / allir “local” drykkir á barnum
  • Aðgangur að heilsulind (Spa)
  • Beint flug frá KEF til Malaga: þann 24.09 (Rétt um tvær klukkustundir í rútu frá flugvelli á hótel, möguleiki á 9 holum á komudegi) 
  • Beint flug frá Jerez til KEF:    þann 04.10 (10 mín rútuferð frá hóteli að flugvelli, möguleiki á 18 holum á brottfaradegi) 
  • Flutningur á golfsettum 
  • Flugvallaskattur 
  • Rútur til og frá flugvelli

Greitt er staðfestingargjald, kr. 50.000.

Sé áhugi fyrir hendi er hægt að bjóða upp á ferð á Real Golf Sevilla, golfvöll í miðri höfuðborg Andalusiu sem ár eftir ár hefur verið valinn einn af fjórum bestu golfvöllum Spánar.  Verð í slíka ferð yrði greitt aukalega og ákvarðast af fjölda kylfinga.

Frekari upplýsingar og bókanir í ferðina fara fram í gegnum Heimsferðir hjá Árna Pál arnipall@heimsferdir.is  eða Sigurveigu sigurveig@heimsferdir.is

Til baka í yfirlit