Golfbúðir og klúbbhús loka – vellir áfram opnir fyrir félagsmenn

Golfbúðir og klúbbhús loka – vellir áfram opnir fyrir félagsmenn

Nú er október genginn í garð og haustið farið að segja til sín eftir sumar sem stóð heldur stutt yfir að margra mati. Eins og venja er á þessum árstíma þá líður að lokun, frá og með mánudeginum 1. október tekur formleg lokun tímabilsins gildi sem þýðir að golfverslunum á báðum völlum verður lokað ásamt því að veitingasölum í klúbbhúsum loka.

Vellir verða áfram opnir félagsmönnum á meðan veður leyfir og verða tilkynningar sendar út þegar um lokanir er að ræða. (Við bendum félagsmönnum okkar á að fara inn á golf.is og undir rástímar – þar mun vallarstjóri setja inn tilkynningu um að völlurinn sé lokaður).

Klúbbhús Korpunnar verður áfram opið svo kylfingar geti nýtt salerni og aðra aðstöðu. Púttaðastaða á 2. hæð hefur verið sett upp og geta félagsmenn nýtt sér þá aðstöðu til æfinga á stutta spilinu. Einnig bendum við golfþyrstum kylfingum á að æfingasvæði Bása er opið alla daga vikunnar.

Klúbbhús Grafarholts verður að einhverju leyti opið svo að félagsmenn okkar komast á snyrtingu, einnig verður salernisaðstaða á 10. teig opin þar til vellir loka.   

Athygli er vakin á að lokað hefur verið fyrir golfbílaumferð á báðum völlum. Umferð golfbíla verður áfram leyfð á Thorvelli á Korpu og á það líka við um veturinn sem framundan er.

Vetrarvinna á Korpu
Í dag hefst einnig götun á síðustu lykkju Korpunnar (Áin) og má búast við að þeirri vinnu ljúki á fimmtudaginn kemur. Næstkomandi föstudag verða allar 27 holur Korpu opnar fyrir félagsmenn okkar.

Við þökkum félagsmönnum og öðrum kylfingum fyrir tímabilið sem er að líða og hlökkum til að sjá ykkur í vetrarstarfi klúbbsins á komandi mánuðum.

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit