Grafarholtsvöllur – vetrarvinna starfsmanna í fullum gangi

Grafarholtsvöllur – vetrarvinna starfsmanna í fullum gangi

Vetrarvinna á völlum félagsins stendur nú yfir og er víst að af nógu er að taka fyrir vallarstarfsmenn því allt þarf að vera eins og best verður á kosið þegar kylfingar mæta til leiks að nýju.

Frá því í október hafa starfsmenn Grafarholtsvallar einbeitt sér að hinum ýmsu verkefnum eins og að tæma öll vökvunarkerfi áður en fer að frysta af alvöru. Flatir eru gataðar og sandaðar auk þess sem lífrænn áburður er borin á til að verja flatirnar fyrir skemmdum yfir vetrartímann. Allar vélar félagsins eru hreinsaðar svo þær séu tilbúnar til notkunar þegar þíða tekur á nýju ári. Bekkir, skilti og öðrum merkingum er safnað saman og vetrarmánuðir nýttir í að hreinsa upp og mála.

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að betrumbæta teiga á 3. og 4. braut vallarins, eldra yfirborð teiganna hafa verið rifin upp og leikflötur stækkaður ásamt því að nýr stígur að teig hefur verið lagður. Áætlað er að taka til hendinni á 16. teig vallarins líka og er það á dagskrá hjá strákunum um leið og færi gefst.

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit