Guðmundur Ágúst og Haraldur Franklín taka þátt á Italian Challenge Open

Guðmundur Ágúst og Haraldur Franklín taka þátt á Italian Challenge Open

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús eru báðir á meðal keppenda á Italian Challenge Open sem leikið verður dagana 1.- 4. október og er hluti af Áskorendamótaröðinni (Challenge Tour) sem er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu í karlaflokki. Keppt verður á Castelconturbia vellinum á Ítalíu sem er í klukkutímafjarlægð frá Mílanó og var hannaður af Robert Trent Jones. Ítalska meistaramótið á Evrópumótaröðinni hefur tvívegis verið leikið á Castelconturbia, árið 1991 og 1998. Völlurinn er 27 holur og verða tvær lykkjur vallarins, bláa og gula, leiknar á þessu móti.

Guðmundur Ágúst er í 31. sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar og er í góðri stöðu varðandi keppnisrétt á lokamótinu á þessu ári. Guðmundur hefur komist í gegnum niðurskurðinn á þremur af fimm mótum og besti árangur hans er 5. sæti á Áskorendamótaröðinni og 18. sæti á Evrópumótaröðinni en hann hefur leikið á þremur mótum á Evrópumótaröðinni og tveimur mótum á Áskorendamótaröðinni á tímabilinu.

Haraldur Franklín Magnús hefur einnig leikið á þremur mótum á Evrópumótaröðinni og tveimur á Áskorendamótaröðinni. Besti árangur hans er 33. sæti á Áskorendamótaröðinni og er Haraldur nú í 112. sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar.

Hér verður hægt að fylgjast með rástímum, skori og stöðu keppenda

Við óskum þeim Guðmundi og Haraldi alls hins besta á Ítalíu um helgina!

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit