Haraldur Franklín og Valdís Þóra valin kylfingar ársins 2018

Haraldur Franklín og Valdís Þóra valin kylfingar ársins 2018

Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni hafa verið valin kylfingar ársins 2018 af Golfsambandi Íslands.

Þetta er í 21. skipti sem að tveir einstaklingar, karl og kona, eru valdir kylfingar ársins hjá GSÍ og í annað sinn sem þau Valdís Þóra og Haraldur Franklín hljóta útnefningu.

Eins og kunnugt er komst Haraldur Franklín inn á Opna breska meistaramótið eftir að hafa endað í öðru sæti á úrtökumóti fyrir risamótið. Hann varð því fyrstur íslenskra karlkylfinga til að taka þátt á risamóti á atvinnumótaröð.

Haraldur Franklín komst í gegnum 1. stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina en hann féll naumlega úr leik á 2. stiginu. Hann er á sínu þriðja ári sem atvinnukylfingur.

Samtals lék Haraldur Franklín á 17 mótum á Nordic atvinnumótaröðinni sem er í þriðja styrkleikaflokki í Evrópu og endaði þar í 55. sæti á stigalistanum. Hann komst í gegnum niðurskurðinn á 10 mótum af 17 og varð besti árangur hans 7. sætið.

Valdís Þóra lék á sínu öðru tímabili á LET Evrópumótaröðinni, sterkustu mótaröð í Evrópu hjá atvinnukylfingum í kvennaflokki. Valdís endaði í 38. sæti á stigalistanum sem er hennar besti árangur á LET. Valdís komst í gegnum niðurskurðinn á 5 mótum af alls 12 sem hún tók þátt í á LET.

Besti árangur Valdísar á árinu varð þriðja sætið á LET-móti í Ástralíu og er það jafnframt besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á atvinnumóti í efsta styrkleikaflokki. Valdís Þóra lék á þremur mótum á LET Access atvinnumótaröðinni, sem er næststerkasta atvinnumótaröð í Evrópu.

Snemma á tímabilinu tryggði Valdís sér áframhaldandi keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni og fór á úrtökumótið fyrir LPGA-mótaröðina í Florida á Plantation Golf & Country Club í Venice, Bandaríkjunum þar sem hún keppti á 2. stigi af alls þremur.

Valdís Þóra var ein af fjórum keppendum í liði Íslands sem sigraði á Evrópumótinu í blandaðri liðakeppni atvinnukylfinga á meistaramóti Evrópu í Skotlandi. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi keppni fer fram hjá atvinnukylfingum.

Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins. Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið kjörinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu hjá konunum eða alls sex sinnum.

Við óskum þessum frábæru kylfingum til hamingu með titilinn „Kylfingur ársins 2018“ í sínum flokki.

Golfklúbbur Reykjavíkur

 

Til baka í yfirlit