Hjálpumst öll að við endurvinnsluna

Hjálpumst öll að við endurvinnsluna

Við hjá GR höfum verið að skoða með hvaða hætti við getum staðið betur að flokkun og endurvinnslu þess sem fellur til á völlum félagsins. Með það að markmiði hafa nú gömlu ruslatunnurnar verið fjarlægðar en í þeirra stað hefur verið komið upp endurvinnslutunnum á völdum stöðum á vellinum. Með þessu móti má koma öllu rusli í sinn flokk og huga betur að umhverfinu.

Við óskum eftir liðsinni félagsmanna með þetta verkefni og biðjum þá kylfinga sem leika á völlum félagsins að taka með sér það sem tilheyrir þeim og losa svo í þar til gerðar flokkunartunnur. Til að byrja með verða flokkunartunnurnar staðsettar við klúbbhúsin í Grafarholti og við Korpu, en verður mögulega fjölgað ef þörf þykir. Við hvetjum kylfinga einnig til þess að hugsa um hvað þeir taki með sér út á völl til þess að lágmarka það rusl sem fellur til og hefur veitingafólkið okkar t.d. breytt umbúðum á samlokum til koma til móts við okkur.

Ekki þarf að taka það fram, en reynist þó þörf á, að rusli hendum við ekki út á völl né skiljum eftir okkur á teigum. Það er einfalt að stinga umbúðum eða gosflöskum í pokann og henda svo þegar næsta flokkunarstöð verður á vegi okkar. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að halda völlunum snyrtilegum og á sama tíma að flokka og skila rusli á réttan stað.

Golfklúbbur Reykjavíkur

 

Til baka í yfirlit