Höldum áfram að gera góða velli enn betri – umgengni og rástímaskráning

Höldum áfram að gera góða velli enn betri – umgengni og rástímaskráning

Ágætu félagsmenn,

Nú er tæpur mánuður liðinn frá opnun valla og vellir félagsins koma vel undan vetri. Gleðilegt er að segja frá því að félagsmenn hafa nýtt þá rástíma vel sem í boði eru. Fyrstu tvær vikurnar var mikill kuldi og þurrkur en síðustu daga hefur úrkoma verið mikil og vellir því viðkvæmir.

Það er í umsjá vallarstarfsmanna að halda völlunum góðum en ábyrgð félagsmanna er einnig mikil, því leggjum við enn og aftur áherslu á mikilvægi þess að ganga vel um velli okkar. Eitt af þeim mörgu verkefnum sem þar má telja upp eru lagfæringar á bolta- og kylfuförum, kylfingar eiga aldrei að fara út nema með gaffal í vasanum og nota hann til að laga eftir sig boltaför. Mikilvægt er einnig að virða umferðarstýringar og ganga ekki yfir girðingar eða á milli flatar og glompu, þessi svæði eru viðkvæm og þá sérstaklega í þeirri veðurtíð sem hefur verið það sem af er sumri. Einnig bendum við þeim kylfingum sem nýta golfbíla við leik að halda umferð í skynsamlegri fjarlægð frá flötum og teigum. 

Golfklúbbur Reykjavíkur vill þakka félagsmönnum þá viðleitni sem hefur verið sýnd varðandi afbókanir í rástíma og hvetjum við alla okkar góðu félagsmenn til að halda uppteknum hætti. Eins og fram hefur komið þá eru golfvellir félagsins takmörkuð auðlind og því mikilvægt að sýna öðrum kylfingum tillitssemi þegar rástímar eru bókaðir og/eða afbókaðir.  

Við þurfum öll að vera meðvituð um það að við erum í sama liðinu og því sameiginleg ábyrgð starfsfólks og félagsmanna að þær reglur sem settar eru séu virtar.

Höldum áfram að gera góða velli enn betri!

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit