Fjórir íslenskir atvinnukylfingar taka þátt á Hopps Open de Provence mótinu sem hefst á Golf International de Pont Royal vellinum í Mallemort Frakklandi í dag og stendur fram til sunnudagsins 19. september.
Það eru þeir Andri Þór Björnsson, Bjarki Pétursson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús sem hefja leik í Frakklandi í dag. Mótið er hluti af næst sterkustu atvinnumótaröð í Evrópu, ChallengeTour.
Andri hefur leikið á sjö mótum á þessu tímabili, hann náði sínum besta árangri á á Big Green Egg German Challenge mótinu sem fram fór á Wittelsbacher vellinum í Þýskalandi í síðustu viku þar sem hann endaði í 32. sæti á 1 höggi undir pari vallar samtals. Andri Þór er nr. 141 á stigalista Áskorendamótaraðarinnar
Bjarki hefur leikið á sjö mótum á þessu tímabili. Hann hefur náð í gegnum niðurskurðinn á einu móti og besti árangur hans er 66. sæti og er nr. 121 á stigalista Áskorendamótaraðarinnar.
Guðmundur Ágúst hefur leikið á 14 mótum á tímabilinu. Hans besti árangur er 8. sæti en hann hefur komist í gegnum niðurskurðinn á 9 mótum. Hann er í 75. sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar.
Haraldur Franklín hefur einnig leikið á 14 mótum á Áskorendamótaröðinni á þessu tímabili. Besti árangur hans Haraldar er 2. sætið og hefur hann komist í gegnum niðurskurð á fimm mótum. Haraldur Franklín er í 42. sæti stigalista Áskorendamótaraðarinnar.
Allar upplýsingar um mót helgarinnar má finna hér
Við óskum strákunum alls hins besta á vellinum í Frakklandi í dag og næstu daga.
Golfklúbbur Reykjavíkur