Íslandsmót golfklúbba í unglingaflokki - GR fagnaði þremur Íslandsmeistaratitlum

Íslandsmót golfklúbba í unglingaflokki - GR fagnaði þremur Íslandsmeistaratitlum

Golfklúbbur Reykjavíkur fagnaði Íslandsmeistaratitli í þremur af fjórum flokkum á Íslandsmóti golfklúbba í unglingaflokki sem leikið var um helgina. Sveit Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar fagnaði sigri í einum flokki.

Hjá drengjum 15 ára og yngri léku lið GR og GKG til úrslita en mótið var haldið hjá Golfklúbbnum á Flúðum. Úrslitaleikurinn var mjög spennandi en fór svo að lokum að GR fagnaði sigri 2-1 þar sem einn af leikjunum réðust á 18. holu. Í þriðja sæti varð sveit Golfklúbbs Akureyrar (GA) en þeir höfðu betur 3-0 á móti sveit Golfklúbbs Mosfellsbæjar (GM).

Pilta- og stúlknaflokkur 18 ára og telpur 15 ára og yngri léku í Vestmannaeyjum. Sveit GR fagnaði einnig sigri í piltaflokki 18 ára og yngri. Úrslitaleikurinn var á milli GR og GM og fór svo að GR hafði betur 2-1. Í leiknum um þriðja sæti hafði sveit GKG-A betur á móti GKG-B 2,5-1,5.

Í stúlknaflokki 18 ára og yngri voru aðeins fjögur lið. Það var lið GKG sem fagnaði sigri en þær unnu alla sína leiki. GR endaði í öðru sæti og að lokum var það sveit GM sem endaði í þriðja sæti.

Það var sveit GR-Korpa sem fagnaði sigri í telpnaflokki. Þær léku á móti GM-A í úrslitaleiknum og höfðu betur 2-1 eftir æsispennandi úrslitaleik þar sem tveir leikir kláruðust á 18. holu og einn á 19. holu. Í þriðja sæti varð sameiginleg sveit Golfklúbbs Sauðárkróks, Fjallabyggðar og Dalvíkur eftir leik á móti sveit GKG.

Við óskum okkar ungmennum til hamingju með frábæran árangur um helgina og telur ljóst að framtíð klúbbsins sé björt!

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit