J.Lindeberg bikarinn - Liðakeppni GR 2021, skráning er hafin

J.Lindeberg bikarinn - Liðakeppni GR 2021, skráning er hafin

Skráning er hafin í liðakeppni GR 2021. Styrktaraðili keppninnar er sá sami í ár og var á síðasta ári J.Lindeberg sem er frábær golffatnaður og fæst í Kúltúr menn í Kringlunni.

Liðakeppni er keppni á milli golfhópa. Sniðið á þessu er svipað og í sveitakeppni milli golfklúbba. Stór hluti kylfinga kynnist því aldrei að vera hluti af liði í golfíþróttinni. Þeir sem hafa tekið þátt í þessari keppni undanfarin ár hafa látið vel af og mikil og góð stemming hefur myndast.

Leikið er í riðlum, þar sem öll lið í hverjum riðli leika innbyrðis. Það fer eftir fjölda liða hve riðlarnir verða stórir en reikna má með 4-5 liðum í hverjum riðli. Riðlakeppnin fer fram í júní mánuði.

Að lokinni riðlakeppni hefst útsláttarkeppni 8 bestu liðanna. Útsláttarkeppnin verður leikin í ágúst.

Mótinu lýkur með úrslitaleik í lok ágúst. Að úrslitaleik loknum verður hátíðarkvöldverður fyrir bæði liðin sem leika til úrslita og allir leikmenn beggja liða fá verðlaun frá J.Lindeberg.

Keppnin er fyrir alla klúbbmeðlimi 19 ára og eldri, þannig að karlahópar, kvennahópar eða blönduð lið eru gjaldgeng. Leikið er með fullri forgjöf í liðakeppninni. Þátttökugjald er 6.000 krónur á hvert lið og greiðist við skráningu. Skráning fer fram í gegnum mótakerfi golfbox

Mörg lið vilja leyfa fleiri keppendum að taka þátt í keppninni en verið hefur. Nú munu því 6 leikmenn keppa fyrir hvert lið í hverri umferð, þar sem fram fara fjórir tvímenningsleikir, sem er holukeppni einn á móti einum og einn leikurinn er fjórleikur þar sem leika tveir gegn tveimur og betra skor kylfings gildir á hverri holu.

Þegar skráningu lýkur verður birt leikjaskrá þar sem fram koma leikdagar og leiktimi allra leikja í riðlakeppninni. Leikið verður á virkum dögum mánadaga til fimmtudags. Teknir verða frá rástímar fyrir keppnina á 9 holu legg Korpu og leikir hefjast milli 19 og 20 á kvöldin. Þar sem margir hópar eru með fasta leikdaga og vilja leika sína leiki á öðrum dögum, þá fá liðin að velja sér vikudag sem þau kjósa að leika ekki liðakeppnina.

Liðin þurfa að skrá leikmenn í liðin og fjöldi leikmanna í hverju liði geta mest verið tólf. Að lokinni riðlakeppni geta liðin sem komast í 8 liða úrslit bætt við leikmönnum ef færri en tólf leikmenn voru skráðir í upphafi. Eins má skipta út leikmönnum hafi einhverjir ekki tekið þátt í riðlakeppninni.

Til baka í yfirlit