Lára Eymundsdóttir er Púttmeistari GR kvenna árið 2018.

Lára Eymundsdóttir er Púttmeistari GR kvenna árið 2018.
Skemmtilegri og spennandi púttmótaröð er nú lokið. 
Líkt og undanfarin ár var frábær þátttaka í púttmótaröð GR kvenna en tæplega tvöhundruð konur skráðu sig til leiks í upphafi vetrar. Að meðaltali mættu um 130 konur á hverju púttkvöldi en púttað var vikulega á þriðjudögum. Í ár var bætt við einu kvöldi svo alls töldu púttkvöldin níu skipti.  Tveir hringir voru spilaðir hvert kvöld þar sem betri hringur taldi og til púttmeistara töldu 4 bestu hringirnir. Mótaröðinni lauk með krýningu á Púttmeistara GR kvenna 2018 í lokahófi á Korpunni þar sem konur gæddu sér á ljúfum veitingum frá Ostabúðinni á Skólavörðustíg. 
Eftir að kylfingar höfðu frá byrjun skipst á að verma toppsæti keppninnar tryggði Lára Eymundsdóttir sér sigurinn í mótinu Lára spilaði vel á öllum púttkvöldunum en segja má að frammistaða hennar næstsíðasta skiptið þegar hún fór völlinn á 25 höggum, hafi fest hana í sessi á toppnum.
Lára fór fjóra bestu hringina sína á samtals 105 höggum sem er besta frammistaða í þessari púttkeppni svo vitað sé, um árabil.  Önnur í mótinu varð Írís Ægisdóttir á 110 höggum og jafnar í þriðja sæti voru Hrund Sigurhansdóttir og Kristín Hassing. Konur röðuðu sér svo þétt á eftir þeim efstu. Aldeilis flott frammistaða og örugglega ávísun á það sem koma skal hjá okkar konum í sumar. 
GR konur óska Láru Eymundsdóttur innilega til hamingju með frábæran árangur.
Við þökkum þátttökuna í púttmótaröðinni. Það styttist í vorið og við bíðum eflaust flestar spenntar eftir því að spretta út á græna grund og njóta golfs og samveru. 
Meðfygjandi er lokastaðan eftir 9 púttkvöld
Framundan í starfinu eru árlegt fræðslu- og reglukvöld í lok apríl sem verður auglýst síðar.
 
Vorferðin okkar verður farin laugardaginn 12.maí. Endilega takið þann dag frá. Þá förum við á vit ævintýranna og spilum golf í sveit. Líkt og í fyrra verður þetta vissuferð, við ætlum að eiga góða dagsstund saman á Selsvelli á Flúðum. Skráning verður auglýst þegar nær dregur. 
Vorferðin hefur verið á meðal skemmtilegustu viðburða í starfi GR kvenna, eitthvað sem engin má missa af. 
Þá má geta þess að ákveðið hefur verið að bæta við tveimur mótum í Sumarmótaröðina frá því sem áður hefur verið. Við hefjum leik miðvikudaginn 16.mai og spilað verður annan hvern miðvikudag fram í lok ágúst, alls átta skipti. Svo er meistaramótið á sínum stað í júlí og haustmót GR kvenna í byrjun september. 
Við í kvennanefndinni hlökkum mikið til að starfa með ykkur áfram í vor og sumar, allar ábendingar um starfið eru vel þegnar sem og ef þið hafið möguleika á að aðstoða með vinninga fyrir komandi mót. 
Kær kveðja
Kvennanefnd GR
Elín Sveins, Eygló, Guðný S, Íris Ægis, Ragnheiður Helga, Sandra Margrét, Sigríður Oddný og Unnur Einars.
Til baka í yfirlit